Sigurði Ingibergi Björnssyni, framkvæmdastjóra Klíníkurinnar Ármúla, þykir umræðan um heilbrigðiskerfið snúast of mikið um útgjöld en sjaldnar um hverju hún skilar.

„Í öðrum rekstri er alltaf horft til þess hverju fjárfesting skilar þegar upp er staðið. Það er engin spurning að heilbrigðisþjónusta borgar fyrir sig sjálf, ekki síst séð frá dyrum hins opinbera. Ef fólk fær þá þjónustu sem það þarf strax og kemst fljótt aftur á vinnumarkaðinn, þá skilar fjárfestingin sér í gegnum skattana sem það greiðir. Ég held því að það sé mjög mikilvægt að pumpa vel í dekkin hjá Sjúkratryggingum, að við styrkjum þá stofnun og felum henni innkaup á heilbrigðisþjónustu. Liðskiptaaðgerðirnar eru dæmi um frábæra fjárfestingu og svo ekki sé minnst á þá 10 til 20 þúsund einstaklinga sem eru með ómeðhöndlað ADHD. ADHD er tiltölulega ódýrt að meðhöndla og ávinningurinn mikill."

Hann bendir á að það sé ekki til ein lausn sem henti öllum viðfangsefnum heilbrigðiskerfisins. Styrkleikar opinberra sjúkrahúsa og einkarekinna séu ólíkir og því sé farsælast að vinna saman að lausnum.

„Við erum að gera ofboðslega mikið af sömu aðgerðunum, þannig að við erum með starfsfólk sem framkvæmir þær nánast með mænunni og skiptitíminn frá því að sjúklingur fer út og aðgerð á þeim næsta er hafin er mjög stuttur. Verkefni okkar eru fyrirsjáanleg þannig að við skipuleggjum okkur fram í tímann og keyrum á 100% afköstum sem gerir þetta mjög hagkvæmt og á sama tíma mjög öruggt þar sem það er minni hætta á mistökum og þess háttar. Meginhlutverk Landspítalans er aftur á móti að takast á við það ófyrirséða og flókna. Svoleiðis stofnun þarf að skipuleggja sig á um 50 til 60% afköstum, því það verður alltaf að vera svigrúm, og menningin verður því allt öðruvísi þar heldur en hjá okkur. Þau geta aldrei keppt við okkur í afköstum en við værum líka alveg ömurleg í því að taka við óvæntu rútuslysi. Þetta snýst því fyrst og fremst um að setja fram mismunandi lausnir við mismunandi viðfangsefnum."

Umræðan einkennist af of miklum átökum, að mati Sigurðar. „Hinu opinbera er stillt upp á móti því einkarekna, sem er alveg glórulaust. Þetta snýst um að við tölum saman og leysum verkefnin saman. Ég tel að stóra vandamálið sé að heilbrigðiskerfið er skipt í mörg síló, fólk er bara að halda utan um sitt og sílóin ná ekki að tala saman. Við þurfum að nýta betur þau úrræði sem við höfum með því að vinna betur saman. Ef til vill er trixið þar að pólitíkin stígi aðeins til hliðar og við sem störfum innan heilbrigðiskerfisins fáum að eiga samtal í friði, án þess að okkur sé stillt upp eftir einhverjum pólitískum örmum."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .