Aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra og formanns Samfylkingarinnar, hefur sent frá sér tilkynningu með broti úr ályktun landsfundar Samfylkingarinnar frá því í fyrra, vegna skrifa um stefnu Samfylkingarinnar í Evrópumálum.

Í tilkynningu aðstoðarmannsins, Kristrúnar Heimisdóttur, segir að hún sé send út vegna fyrirspurna fjölmiðla, en „borið hefur à skrifum pólitíkusa að undanförnu sem sýna þekkingarleysi à sögu og stefnu Samfylkingarinnar.“

Samfylkingin sögð eiga ólokið undirbúningi í samræmi við lýðræðislegar samþykktir

Á Þorláksmessu skrifaði Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, um Evrópustefnu flokksins og sagði að Samfylkingin hefði ekki lokið undirbúningi í samræmi við lýðræðislegar samþykktir og gæti því ekki skrifað undir umsókn um aðild að ESB.

Stefán Jóhann segir að á landsfundi flokksins eftir póstkosningu um Evrópumál sem fram fór árið 2002 hafi verið skipaður níu manna málefnahópur til að skoða ávinning Íslands af aðild að ESB og skilgreina samningsmarkmið. Hópurinn hafi aldrei komið saman og því hafi Samfylkingin engin samningsmarkmið að stefna að.

Í framhaldi af grein Stefáns Jóhanns ritaði Ármann Kr. Ólafsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins um málið og sagði að í kjölfar landsfundar Sjálfstæðisflokksins „gæti sú skondna staða verið komin upp að eingöngu annar flokkurinn í ríkisstjórn hefði skýrt umboð til umsóknar í Evrópusambandið, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn en ekki Samfylkingin.“

Og Ármann spurði hvernig sú staðreynd horfði við forystu Samfylkingarinnar.

Samfylkingin vill að Ísland hefji aðildarviðræður og að unnið verði að samstöðu um samningsmarkmið

Í brotinu úr ályktun landsfundar Samfylkingarinnar frá árinu 2007 sem Kristrún Heimisdóttir sendi út, segir um Evrópustefnu að Samfylkingin vilji:

„1. Að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu og hefji aðildarviðræður. 2. Unnið verði að víðtækri samstöðu um samningsmarkmið. 3. Að niðurstöður samninga verði bornar undir þjóðaratkvæði.“

Þar segir einnig: „Stefna Samfylkingarinnar í Evrópumálum hefur frá upphafi byggt á traustu umboði frá flokksmönnum, eins og fram kom í vandaðri stefnumótun og atkvæðagreiðslu meðal flokksmanna allra um stefnu í Evrópumálum á árunum 2001-2003.“ Síðar í ályktuninni segir ennfremur: „Aðild að Evrópusambandinu og aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu er nauðsynleg til að tryggja efnahagslegan stöðugleika til lengri tíma litið og skapa íslenskum heimilum og fyrirtækjum samkeppnishæft rekstrarumhverfi. Ísland á að vera fullgildur þátttakandi í Evrópusamstarfi. Ísland er nú þegar aðili að flestum þáttum Evrópusamstarfsins og því ástæðulaust að ætla annað en að aðildarviðræður gætu gengið greiðlega. Breyta þarf stjórnarskrá áður en aðild að Evrópusambandinu getur tekið gildi hér á landi, en sú staðreynd kemur ekki í veg fyrir að sótt sé um aðild og gengið frá aðildarsamningi.“