Úrvalsvísitala Kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,45% í dag og stendur nú í 1.614,17 stigum. Um áramótin stóð hún í 1710.61 stigi og hefur hún því lækkað um 5,64% frá áramótum. Einnig lækkaði heildarvísitalan, þar sem að öll félög markaðarins eru tekin með, um 2,4% í dag. Eins og hefur verið bent á áður , þá hefur gengi hlutabréfa Össur mikil áhrif í því samhengi.

Líklegt er að pólitísk óvissa hafi haldið áfram að lita markaðinn. Að mati markaðsaðila sem að Viðskiptablaðið ræddi við gæti það verið að stór aðili á markaði með skuldsetta stöðu í markaðnum „hafi sprungið“ — og að þessar miklu lækkanir í dag hafi verið litaðar af því, þó að erfitt sé að fullyrða um það. Einnig var það álit eins markaðsaðila að það væri stundum gert því of hátt undir höfði hversu mikil áhrif pólitískur stöðugleiki hafi í raun markaðinn.

Í kjölfar þess að ríkisstjórnin sprakk hefur verið umtalsvert um lækkanir á verðbréfamarkaði, og hefur úrvalsvísitalan lækkað nokkuð frá síðasta föstudegi. Á síðastliðnum mánuði hefur vísitalan lækkað um 7,04%, en einungis um 5,64% frá áramótum eins og kemur fram hér að ofan. Margir hafa fært rök fyrir því að pólitísk óvissa hafi haft gífurlega neikvæð áhrif á gengi hlutabréfa skráðra félaga, og gekk fjármálaráðherra meira að segja svo langt að kalla óvissuna; „eitur í beinum fjárfesta“.

Nýherji lækkaði mikið í dag

Í dag lækkaði gengi hlutabréfa Nýherja mikið, eða um 4,46% í 105,5 milljón króna viðskiptum. Svipaða sögu má segja um tryggingafélögin þrjú, TM, VÍS, og Sjóvá, en þau lækkuðu öll á bilinu 1,78% - til 2,18% í viðskiptum dagsins. Gengi hlutabréfa HB Granda hefur lækkað umtalsvert á síðustu viku, eða frá því að tilkynnt var um stjórnarslit. Í dag lækkaði gengi bréfa félagsins um 1,65% í 89,4 milljón króna viðskiptum. Síðastliðna viku hefur gengi bréfa félagsins lækkað um 11,26%.

Þó snerist ekki allt um lækkanir í Kauphöllinni í dag, því að tæknifyrirtækið Klappir, mætti á Nasdaq First North Iceland í morgun . Klappir þróar, selur og innleiðir hugbúnaðarlausnir á sviði umhverfismála. Aðferðafræði og hugbúnaðarlausnir Klappa gera fyrirtækjum, sveitarfélögum og stjórnvöldum fært að setja sér mælanleg markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og upplýsa um árangur á hagkvæman og gagnsæjan hátt. Áhersla er á auðveldan aðgang og rekjanleika.