Pólitísk óvissa ógnar góðum rekstrarárangri í sjávarútvegi og hefur sjaldan verið meiri en nú að mati Friðriks Sophussonar stjórnarformanns Íslandsbanka.

„Stefna núverandi ríkisstjórnar gagnvart atvinnugreininni hefur aðallega falist í auknum álögum og lítt ígrunduðum tillögum um breytingar á stjórnkerfi fiskveiða. Flestir þeir aðilar sem um tillögurnar hafa fjallað vara við þeim og telja að þær grafi stórlega undan rekstrargrundvelli fyrirtækja í greininni," segir í aðsendri grein Friðriks í Viðskiptablaðinu.

„Röskun á núverandi stjórnkerfi gæti stofnað núverandi rekstrarárangri í hættu. Af þessum sökum hefur skapast kyrrstaða í fjárfestingum hjá fyrirtækjum innan sjávarútvegsins auk þess sem mikil orka og mikill tími fer í umræðu og aðgerðir til að lágmarka þann skaða sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar geti haft í för með sér," segir Friðrik.

Bætt afkoma

Hann rifjar upp hverju breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu hefur skilað í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja.

„Sé horft um öxl má sjá að rekstrarárangur sjávarútvegsins, mældur sem EBITDA (afkoma fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir) hefur aukist jafnt og þétt. Meðalframlegð á tímabilinu 1980-84, fyrir innleiðingu kvótakerfisins, var um 7%. Á tímabilinu 1984-91, áður en frjálst framsal aflaheimilda var heimilað með lögum, var framlegðin að jafnaði 15%. Frá 1991 til 2008 hefur framlegðin aukist í um 20% sem er mikil og jákvæð breyting.

Þessi þróun EBITDAframlegðar er ekki síst merkileg í ljósi þess að veiðar á þorski, verðmætustu fisktegundinni, drógust saman og stór kostnaðarliður, olían, hækkaði á þessu tímabili. Þorskafli minnkaði úr 430.000 tonnum árið 1980 niður í aðeins 151.000 tonn árið 2008," segir Friðrik.