Á tímum mikillar óvissu og umróts í heiminum getur oft reynst gott að hafa einhvers konar vegvísi fyrir hvað getur farið úrskeiðis. Eins og frægt er getur vængsláttur fiðrildis í Brasilíu haft áhrif víðs vegar um heiminn — eins og haldið er fram í óreiðukenningum (e. chaos theory). Í fjárfestingum, rekstri fyrirtækja og í stjórnmálum er nauðsynlegt að viðhalda ákveðnum stöð- ugleika. Það er stöðugleiki sem stjórnmál bjóða oftar en ekki upp á. Því er nauðsynlegt að afla sér upplýsinga til þess að geta mögulega spáð fyrir um og sjá fyrir óvænta viðburði. Með þekkingu öðlast maður völd.

Fjárfestar og stjórnmálamenn hérlendis hafa bent á mikilvægi þess að viðhalda einhvers konar stöðugleika í stjórnmálum, þar sem fjárfestingar velta á hinum ýmsu óvissuþáttum. Heimurinn verður í sífelldu samtengdari og því geta ákvarðanir misjafnra einræðisherra eða populista haft áhrif á hag almennings, ekki einungis í þeirra eigin ríkjum, heldur einnig um gjörvalla veröld og hér á litla Íslandi.

Hvað er pólitísk áhætta?

Því er gífurlega mikilvægt að búa að minnsta kosti yfir þekkingu á heimi sem verður í sífelldu flóknari og tengdari. Ráðgjafafyrirtæki á borð við Eurasia Group hafa því markað sér sess sem ráðgjafar í pólitískri áhættu.

Í byrjun árs 2016, tók ráðgjafafyrirtækið Eurasia Group saman helstu pólitísku áhættuþætti heimsbyggðarinnar . Þeir ná bæði yfir þætti sem gætu haft áhrif til lengri og skemmri tíma á heimsbyggðina. Hér verður stiklað á stóru í spá Eurasia Group og litið yfir víðan völl. Nú nálgast óðfluga áramót og því er nokkuð hentugt að fara yfir það hvort spádómar og greining Eurasia Group um helstu áhættu­ þætti í heiminum hafi ræst, eða hvort þeir hafi skipt máli í stóra samhenginu, til að geta metið tilgang eða tilgangsleysi slíkra spá­dóma eða greininga.

Efst á lista Eurasia Group þetta árið voru samskipti Evrópumanna við Bandaríkin. Þar er tekið fram að þetta sé mikilvægasta bandalag síðustu 70 ára. Nú er sambandið orðið veigaminna og meta sérfræðingar Eurasia Group það til hins verra. Nú á þessu ári hafa vaknað upp raddir sem kveða á um að Evrópumenn vilji til að mynda ekki borga sinn skerf í NATO og það virðist nokkuð ljóst að Bandaríkjamenn líta frekar á Asíu sem þá álfu sem skiptir hvað mestu máli. Þetta er hins vegar vandamál sem leysist ekki á einu ári, sér í lagi ef einstaklingar eins og Donald Trump fá að vaða uppi.

Sannspáir greiningaraðilar

Í nokkrum tilfellum þá sá Eurasia Group fyrir sér stóra atburði sem hafa haft mikil áhrif og láta Nostradamus sjálfan líta illa út. Til að mynda spáði ráðgjafafyrirtækið því fyrir að Dilma Rousseff, forseti Brasilíu, yrði í miklum vandræðum á árinu, eftir ítarlega greiningu á stjórnmálaástandinu. Rousseff var vikið úr stöðu forseta af brasilíska þinginu í byrjun september á þessu ári. Einnig sáu Eurasia-liðar fyrir að mikil ókyrrð yrði í Tyrklandi. En eins og fréttahaukar hafa eflaust tekið eftir þá framdi tyrkneski herinn misheppnað valdarán – sem hefur valdið miklum titringi í Tyrkland og nágrenni. Þessi upptalning hér er þó einungis brotabrot af því sem gæti haft áhrif og hefur haft áhrif.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .