Pólitískt vægi forsetans hefur aukist mikið síðustu ár, en það skýrist m.a. af túlkun núverandi forseta, Ólafs Ragnars Grímssonar á stjórnskipulegi hlutverki forsetans og breyttum viðhorfum meðal kjósenda um lýðræði og hlutverk forsetans. Þetta kemur fram í nýrri grein eftir Björg Thorarensen, prófessor við Lagadeild HÍ  og Stefaníu Óskarsdóttur, dósent við Stjórnmálafræðideild HÍ sem birtist í vefritinu Stjórnmál og stjórnsýsla sem kom út í dag.

Greinin fjallar um stjórnskipulega stöðu forsetans við lýðveldisstofnun og þróun hennar í valdatíð Ólafs Ragnars Grímssonar. Fram kemur að þrátt fyrir að orðalag stjórnarskrárinnar um forsetaembættið hafi ekki verið breytt frá árinu 1944 þá hafi pólitískt vægi forsetans aukist á síðari árum.

„skýrist það m.a. af túlkun Ólafs Ragnars Grímssonar á stjórnskipulegu hlutverki forsetans og breyttum viðhorfum meðal kjósenda um lýðræði og hlutverk forseta. Forseti Íslands er því orðinn nokkurs konar gæslumaður Alþingis (þingmeirihlutans) þvert á það sem var ákveðið árið 1944.“

Óljós túlkun skapaði svigrúm

Fram kemur að opin og óljós túlkun umgjarðar málsskotsákvæðis stjórnarskrárinnar hafi skapað svigrúm um að forseti hafi sérstöku hlutverki að gegn sem annar handhafi löggjafavaldsins í umboði þjóðarinnar og gæslumaður gagnvart Alþingi..

„Þannig tempri hann lagasetningarvald þingsins eða öllu heldur meirihluta þess, sem stendur að baki ríkisstjórninni.“

Bent er á að þetta gæti haft þau áhrif að ríkisstjórn, og sitjandi þingmeirihluti, þurfi að taka mið af því að forsetinn muni ekki undirrita lög um umdeild og erfið mál. Á móti þá geti það líka orðið til þess að þingmeirihlutinn þurfi að auka samráð við minnihlutann á Alþingi.

Í átt til aukins forsetaræðis

Í greinni kemur einnig fram að höfundar telja að ef ekki verða gerðar breytingar á stjórnarskránni þá geti valdahlutföll þróast í átt til aukins forsetaræðis.

„Það er mat höfunda að á meðan engar breytingar eru gerðar á stjórnarskránni til að skilgreina betur hlutverk og stöðu forseta geti valdahlutföll þings, ríkisstjórnar og forseta þróast enn frekar í átt til aukins forsetavalds.“