Guðmundur Árni Stefánsson, sendiherra Íslands í Stokkhólmi, segist engin áform hafa um að snúa aftur í íslensk stjórnmál. Í viðtali við Viðskiptablaðið er hann spurður út orðróm sem upp kom í janúar sl. þess efnis að honum sé ætlað að taka við formannsstóli í Samfylkingunni af Jóhönnu Sigurðardóttur og svarar: „Það er ýmsu slegið fram í íslenskri pólitík um þessar mundir og ekki alveg allt sannleikanum samkvæmt. Ég hef engin áform þess efnis að snúa til baka í stjórnmálin. Ég fylgist auðvitað grannt með gangi þjóðmála á Íslandi vegna starfa minna sem sendiherra og einnig vegna mikils áhuga á pólitíkinni. Það er auðvitað þannig að þeir sem hafa starfað í pólitík losna ekki svo létt frá henni. Því pólitískur áhugi er eins og góðkynja vírus, sem alltaf gerir vart við sig annað slagið!“

Guðmundur Árni segist kunna vel við sig í sendiherrastarfinu, sem hann kallar þjónustustarf. „ Ég sinni þeim störfum sem stjórnvöld hverju sinni leggja áherslu á. Það hafa þrjár ólíkar ríkisstjórnir farið með völd á Íslandi á þessum fimm árum sem ég hef verið í starfi sendiherra. Það hefur verið algjörlega vandalaust fyrir mig að aðlaga mig að þeim áherslum sem hver og ein þessara ríkisstjórna hefur haft á oddinum,“ segir hann.

Guðmundur Árni Stefánsson er í viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar ræðir hann um hvernig útrás íslenskra fyrirtækja hefur breyst og viðbrögð Svía við efnahagshruninu og eldgosinu í Eyjafjallajökli.