Verslunin Póllinn á Ísafirði hefur tekið að sér hlutverk umboðsaðila fyrir vörur og þjónustu Vodafone í bænum. Ísfirðingum stendur fjölbreytt fjarskiptaþjónusta til boða hjá Vodafone; GSM þjónusta, heimasíma- og netþjónusta. Að auki býður Póllinn nú upp á úrval símtækja og annast dreifingu netbúnaðar.  Þetta kemur fram í frétt frá Vodafone.

Með þessari auknu þjónustu við Ísfirðinga vill Vodafone ýta undir enn frekari samkeppni á fjarskiptamarkaði í bænum. Nú þegar hafa bæjarbúar notið góðs af samkeppninni og skemmst er að minnast mikillar verðlækkunar á ADSL þjónustu í kjölfar þess að Vodafone hóf að bjóða síka þjónustu í bænum.

Hjá Pólnum er einnig hægt að nálgast myndlykla fyrir Digital Ísland, stærsta dreifikerfi á Íslandi fyrir sjónvarpsefni, en Digital Ísland er í eigu Vodafone. Á undanförnum mánuðum hefur mikil uppbygging á kerfinu átt sér stað og meðal annars hefur framboð sjónvarpsstöðva stóraukist víða á landsbyggðinni. Póllinn hefur um árabil verið umboðsaðili Digital Ísland og býður upp á fjölbreytta þjónustu í tengslum við það, m.a. uppsetningar á loftnetum og ráðgjöf.

Vodafone á Íslandi er fjarskiptafyrirtæki í eigu Teymis hf. sem skráð er í Kauphöll Íslands. Starfsmenn Vodafone eru um 350 talsins og þjónusta viðskiptavini á heimilum og hjá fyrirtækjum um land allt með farsíma, síma, nettengingar og sjónvarp. GSM dreifikerfi Vodafone nær til 98% landsmanna og með samstarfi við Vodafone Group, eitt öflugasta fjarskiptafyrirtæki í heimi, er viðskiptavinum Vodafone tryggð örugg farsímaþjónusta um allan heim.