Pólska farsímafyrirtækið P4, sem er í meirihlutaeigu fjárfestingafélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur samþykkt að kaupa gríska símtækjadreifingarfyrirtækið Germanos og verður greitt fyrir félagið með hlutabréfum í P4. Pólska símafyrirtækið Netia, sem átti fyrir kaupin 30% hlut í P4, greindi frá þessu í gær.

Eftir viðskiptin er hlutur Björgólfs Thors í félaginu 54,6% í stað 70% og hlutur Netia minnkar í 23,4%. Fjárfestingafélagið Tollerton, sem skráð er á Kýpur, mun eignast 22% í P4 við það að leggja Germanos inn í félagið.

Orðrómur hefur verið um að Björgólfur Thor hafi haft áhuga á að selja hlut sinn í P4 og Netia -- fjárfestingafélag hans Novator á einnig í kringum 30% hlut í Netia -- síðan tilkynnt var um að hann hafi ráðið fjárfestingabankann Lehman Brothers til að finna hugsanlega kaupendur að Bulgarian Telecommunications Company (BTC). Vangaveltur hafa verið um það í pólskum fjölmiðlum að Novator íhugi nú að losa fjarskiptafjárfestingar sínar og draga úr fjárfestingum í Mið- og Austur Evrópu, þar á meðal í Póllandi.

Netia greindi einnig frá því í gær að áætlað væri að skrá farsímarminn P4 á næsta ári og túlka greiningaraðilar væntanlega skráningu þannig að ólíklegt sé að Novator muni selja hluti sína í Netia og P4 fyrir þann tíma. Talsmaður Novators sagðist ekki geta tjáð sig um hugsanlega sölu á Netia og P4.

Eigendur P4 hafa samþykkt að fjárfesta 300 milljónir evra, sem samsvarar um 26 milljörðum króna, í félaginu og mun Tollerton-sjóðurinn leggja til 35 milljónir evra af þeirri upphæð. Novator, sem er stærsti hluthafinn, mun því borga stærsta hluta fjárhæðarinnar.