Stjórnarflokkur Póllands, Lög og réttlæti (PiS), vann stórsigur í þingkosningum í landinu sem haldnar voru í gær með því að auka atkvæðafjölda sinn úr 37,6% í 43,8%, en á sama tíma tókst stjórnarandstöðunni í sameiningu að fella meirihluta þeirra í efri deildinni, með því að sameinast um fulltrúa þar.

Skipting þingsætanna 460 í neðri deild er ekki komin í ljós en ljóst er hvernig 100 sætin í efri deildinni skiptast. Stjórnarflokkurinn, sem leiddur er af Jaroslaw Kaczynski, sem þó hefur ekki setið í ríkisstjórn, fékk síðast 235 þingsæti í neðri deild og 61 í efri deild en fer nú í 48 í þeirri efri.

Það þýðir að ekki verður jafnauðvelt fyrir flokkinn að koma í gegn lagasetningum og breytingum á dómstólum landsins sem stjórnvöld hafa verið að ýta í gegn þvert á vilja Evrópusambandsins, en hann hefur jafnframt tekið sér aukin völd í fjölmiðlum landsins.

Aðalkeppinauturinn, Borgaralegur vettvangur, bauð sig núna fram í samfloti með öðrum flokkum undir nafninu Borgaralega bandalagið og fór úr 24,1% í 27,2%, en þess má geta að einn af bandalagsflokkunum, Nútímalegir, fékk 7,6% atkvæða fyrir fjórum árum svo í heildina dróst atkvæðafjöldi þeirra saman. Síðast fékk Borgaralegur vettvangur og 138 þingsæti í neðri deild og 34 í þeirri efri, en Nútímalegir fengu 28 í þeirri neðri. Nú fá þeir 26 þingsæti í efri deild saman.

Nýtt flokkabandalag, Vinstri, sem samanstendur m.a. af sósíaldemókrötum sem voru framan af sterkir í landinu en hurfu af þingi síðast, náði nú 12,5% atkvæða og 2 þingsætum í efri deild.

Annað nýtt flokkabandalag evrópusinnaðra hægriflokka, Pólska bandalagið, fengu nú 8,6% atkvæða, sem er minna en einn flokkurinn í því hafði fengið fyrir fjórum árum. Sá flokkur var stofnaður af rokkaranum Pawel Kukiz og fékk 8,8% atkvæða þá en annar bandalagsflokkur þar, Pólski þjóðarflokkurinn hafði fengið 5,5% atkvæða. Flokkur Kukiz fékk síðast 42 þingsæti og Pólski þjóðarflokkurinn 16, en nú fá þeir 3 sæti í efri deild.

Loks náði nýtt bandalag þjóðernissinnaðra og evrópuefasemdarflokka um ESB, Bandalag frelsis og sjálfstæðis, 7,0% atkvæða, en ekkert sæti í efri deild.