Pólska símafyrirtækið Netia hugleiðir nú hlutafjárútgáfu eða sölu á 23,4% hlut sínum í farsímafyrirtækinu P4, en það er í sameiginlegri eigu Netia og Novators, auk minni hluthafa.

Thomson Financial greindi frá þessu og hafði eftir tilkynningu frá Netia að stjórn þess hefði samþykkt leit að kaupendum á hlutnum og að endanleg ákvörðun um hugsanlega hlutafjárútgáfu yrði tekin á fyrsta ársfjórðingi.

"Netia hefur verið upplýst um áhuga á hlut þess," segir í tilkynningunni. "Netia telur að verðmæti hlutar sé nú mun hærra en þær 80 milljónir evra sem Netia fjárfesti upphaflega í verkefninu," segir enn fremur.

Ásgeir Friðgeirsson, talsmaður Novators, sagði hugleiðingar Netia engin áhrif hafa á hlutdeild Novators í P4, en fyrirtækið var stofnað í sameiningu af Novator og Netia. Hann segir hátt tilboð í hlut Netia augljósa vísbendingu þess að reksturinn gangi vel.