Pólska fatakeðjan 4F hefur opnað verslun í verslunarmiðstöðinni Smáralind í gegnum sérleyfissamning við eigendur Nordic Store, sem hafa um árabil rekið verslanir sem selja ýmis konar íslenskar vörur til erlendra ferðamanna. Nordic Store er í eigu framkvæmdastjórans Hafsteins Vals Guðbjartssonar og Bjarna Jónssonar.

Hafsteinn segir 4F vera alþjóðlegt fyrirtæki sem hafi vaxið mjög hratt síðustu ár og reki í dag 350 verslanir í 15 löndum í Evrópu. „4F sérhæfir sig í íþrótta- og útvistarfatnaði. Vörulína félagsins er mjög breið og inniheldur m.a. jógaföt, hlaupaföt, göngu- og íþróttaskó, snjóbretta- og skíðaföt og annan útivistarfatnað."

Hann segir 4F hafa notið velgengni vegna einfaldrar stefnu sem snúist um að bjóða vörur í háum gæðaflokki á hagstæðu verði sem fáir geti keppt við. Hagstætt vöruverð sé tilkomið vegna mjög þróaðrar aðfangakeðju og öflugrar birgðastýringar, auk magninnkaupa. „Ég tel verslun 4F eiga mikið erindi inn á íslenska markaðinn. Í verslun okkar í Smáralind er hægt að nálgast vörur í háum gæðaflokki fyrir hagstæðari verð en áður hafa sést. Gróflega áætlað bjóðum við 30% til 50% lægri verð en önnur merki sem búa yfir sambærilegum gæðum."

Heilluð upp úr skónum

Hafsteinn segir eigendur Nordic Store hafa starfað í verslunarbransanum í um fimmtán ár og allan þann tíma einblínt á rekstur verslana sem sniðnar eru að ferðamönnum. Þá hafi lengi langað til að prófa að reka annars konar verslanir á Íslandi. Ýmsir möguleikar hafi komið inn á borð en enginn heillað nægilega til að taka slaginn, allt þar til 4F kom til skjalanna.

Eigendurnir kynntust að sögn Hafsteins 4F í gegnum starfsmenn Nordic Stores sem koma frá Póllandi. „Þau töluðu mjög vel um vörumerkið og sögðu okkur frá því að það seldi vandaðan fatnað á mun lægri verðum en þekkist annarsstaðar. Í kjölfarið höfðum við samband við fyrirtækið, sem tók mjög vel í fyrirspurn okkar. Það fór því svo að við skelltum okkur til Póllands og fengum að skoða verslanir þeirra, skrifstofur og vöruhús. Í þessari ferð heillaði 4F okkur alveg upp úr skónum."

Í samstarfi við Lewandowski hjónin

Pólski knattspyrnumaðurinn Robert Lewandowski, sem er af mörgum talinn einn besti sóknarmaður heims, og eiginkona hans Anna Lewandowska, sem unnið hefur til verðlauna á heims- og Evrópumeistaramótum í karate, eiga í samstarfi við 4F og hafa hjónin hannað vörulínu í samstarfi við vörumerkið. Er um íþróttavörulínu að ræða og er línan sem ætluð er körlum kennd við Robert og kvenfatalínan kennd við Önnu.

„Vörulínan sem þau hönnuðu býr yfir enn meiri gæðum en hinar vörulínur 4F og verð þeirra því aðeins hærra. Vörulína hjónanna hefur fengið frábærar viðtökur og við erum mjög ánægð með að geta boðið landsmönnum aðgengi að þessum vandaða og góða fatnaði," segir Hafsteinn.

Auk þess er 4F með samning við Ólympíulið Póllands, Króatíu, Serbíu, Grikklands, Makedóníu, Litháens, Lettlands og Slóvakíu um að framleiða og hanna allan fatnað bæði fyrir Vetrar- og Sumarólympíuleika.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Þýskur ríkisborgari hefur keypt dýrasta einbýlishús landsins, sem stendur við Fjölnisveg 9 í Reykjavík.
  • Útboðið á Íslandsbanka rýnt með augum sérfræðinga á fjármálamarkaði
  • Fjallað er um aukið umfang kaupréttarsamninga í Kauphöllinni.
  • Fjárfestingastjórar hjá Alfa Framtaki ræða 15 milljarða framtakssjóðinn
  • Sagt er frá nýju kerfi sem sparar verktökum tíma og gefur þeim betri yfirsýn yfir starfsemi sína.
  • Frumvarp um auknar heimildir lífeyrissjóðanna til erlendra fjárfestinga skoðað
  • Karl Guðmundsson, nýr forstjóri Florealis, ræðir endurkomuna til lyfjafyrirtækisins.
  • Fjölmiðlarýnir fjallar um vin Páls Magnússonar og fjárfestingar.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem fjallar um uppátæki Lilju Alfreðsdóttur.
  • Óðinn skrifar um einkavæðingu Íslandsbanka.