Lánið sem Pólverjar hafa samþykkt að veita Íslendingum er til 12 ára, með fimm ára afborgunarlausum tíma. Lánið verður borgað út í þremur jöfnum hlutagreiðslum sem eru tengdar annarri, þriðju og fjórðu endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands með AGS, og er hver greiðsla háð því að viðkomandi endurskoðun hafi verið samþykkt. Lánið verður veitt og borgað út í pólskum slotum (PLN).

Samkvæmt samningnum lánar pólska ríkið íslenska ríkinu 630 milljónir pólskra slota (zloty, PLN) sem er jafnvirði u.þ.b. 200 milljóna Bandaríkjadala.

Samhliða útborgun lánsfjárins mun pólska fjármálaráðuneytið gefa út pólsk ríkisskuldabréf í fjórum tilgreindum skuldabréfaflokkum í sömu fjárhæð og útborgun lánsins nemur hverju sinni. Lántakandi skuldbindur sig samkvæmt lánssamningnum til þess að verja útborguðu lánsfé til kaupa á hinum tilgreindu pólsku ríkisskuldabréfum.

2% vaxtaálag

Greiðsluferlarnir samkvæmt lánssamningnum munu samsvara vaxtagreiðslu- og endurgreiðsluferlum hinna tilgreindu pólsku ríkiskuldabréfa. Hreinn kostnaður lántakanda mun þar af leiðandi eingöngu verða vaxtaálag sem greiða skal samtímis vaxtagreiðslum af pólsku ríkisskuldabréfunum. Vaxtaálagið verður 2% á ári fram til 31. desember 2015 en 1.3% á ári þar eftir. Lánið verður endurgreitt með fjórum afborgunum á lokagjalddögum hinna tilgreindu pólsku ríkisskuldabréfa í október 2015, 2017 og 2019 og í september 2022.

Pólsku ríkisskuldabréfin sem íslenska ríkið eignast samkvæmt lánssamningnum munu styðja við gjaldeyrisforða Íslands. Þar sem lánsféð verður varðveitt í völdum pólskum ríkisskuldabréfum í pólskum slotum (PLN) með endurgreiðslu- og vaxtagreiðsluferlum sem samsvara greiðsluferlum lánssamningsins er bæði vaxtaáhættu og gjaldmiðlaáhættu þar með eytt.