Um síðustu áramót voru erlendir ríkisborgarar 18.563 talsins samanborið við 13.778 ári áður. Hlutfall útlendinga af íbúum í heild er nú 6,0% en var 4,6% hinn 31. desember 2005 að því er kemur fram í frétt Hagstofunnar.

Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað mikið hér á landi undanfarin ár. Í þessu sambandi er þó rétt að hafa í huga að nokkur óvissa er um skráningu útlendinga í flutningum til og frá landinu. Þannig getur dregist að útlendingar sem fá dvalarleyfi séu skráðir hjá þjóðskrá og að sama skapi geta liðið nokkrir mánuðir þar til einstaklingar sem flytjast af landi brott eru felldir úr íbúaskrá.

Undanfarin áratug hefur hlutfall íbúa með erlent ríkisfang meira en þrefaldast en árið 1996 nam hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarmannfjölda 1,8%. Hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarmannfjölda er nú ívíð hærra en í nágrannalöndunum. Í þessu sambandi er þó rétt að hafa í huga að önnur Norðurlönd eiga sér lengri sögu um mikinn fjölda innflytjenda en Íslendingar og því líklegt að hlutfall innflytjenda sem öðlast hefur ríkisfang í nýja landinu sé hærra þar en hér.

Eins og verið hefur allmörg undanfarin ár eru Pólverjar fjölmennastir útlendinga hér á landi, 5.996. Litháar voru 998, Þjóðverjar 945 og Danir 936.