Nýr veitingastaður Ásgeirs Kolbeinssonar á Hverfisgötu 20 verður opnaður í lok mánaðarins. Hann verður í sams konar húsnæði og Hverfisbarinn er í, en hinum megin við áfastan bílakjallarann, gegnt Þjóðleikhúsinu.

„Ég hef verið að pæla í þessu húsnæði lengi enda er staðsetningin á því alveg frábær, þótt útlitið á því hafi kannski ekki verið mjög spennandi síðustu ár, enda þurftum við að fara í ansi miklar breytingar. Staðurinn mun heita Pünk, með þýsku ü, ef þetta væri á íslensku væri þarna ö með punktunum og ef þetta væri enska þá væri þetta u en ekki punktarnir,“ segir athafnamaðurinn Ásgeir Kolbeinsson.

Hann segir að líkt og nafnið gefur til kynna verði staðurinn óformlegur, nokkuð villtur og fjölbreyttur. „Við erum að sameina margar stefnur og strauma sem hafa verið í hausnum á mér síðustu 10 ár, svo nafnið lýsir vel því andrúmslofti sem við erum að búa til en aðalinntakið er stemning. Við þekkjum öll staði eins og Snaps og Tapas barinn þar sem hefur gengið vel að mynda partýstemningu og það er inntakið hér, skemmtilegir og fjölbreyttir réttir, sem hægt er að deila á milli sín og skemmtilegir drykkir, bæði einfaldir og viðráðanlegir og einnig dýrari og flottari.“

Ásgeir segir marga staði nefnda eftir einhveri ákveðinni matarhefð. „Má þar nefna Sushi Social, sem selur auðvitað sushi og getur aldrei hætt því nema breyta nafninu og svo til dæmis Grillmarkaðurinn sem verður að selja eitthvað sem er grillað og svo framvegis,“ segir Ásgeir sem segir slíkum tengingum sleppt vísvítandi í nýja staðnum.

„Við komum til með að vera með alls konar uppákomur og nálgun okkar á upplifun viðskiptavina verður fjölbreytt og margs konar í anda þess að vera svolítið pönk.“ Ýmiss konar rekstur hefur verið í húsnæðinu sem ekki hefur látið mikið yfir sér síðustu ár, þar var lengi hjólabretta-tískuvörubúð, síðar súpubar og tacostaður sem farið hafa jafn hljóðlega af sjónarsviðinu og þeir komu.

„Okkur langaði að gera alvöru breytingar, það þýðir ekkert bara að mála einhvern vegg hvítan í staðinn fyrir svartan, heldur þarf að fylgja eftir hugmyndinni og byggja upp gott umhverfi fyrir það sem haft er í huga. Þess vegna fórum við í það að gjörsamlega strauja húsnæðið en það er Leifur Welding sem hannar staðinn,“ segir Ásgeir en Leifur er m.a. hönnuðurinn á Grillmarkaðnum, Sushi Social, Apótekinu, Sæta svíninu, Fjallkonunni og Hótel Geysi í Haukadal.

„Staðnum verður skipt þannig að það verður annars vegar upphækkun þar sem er stór setustofa og bar sem verður væntanlega einn stærsti bar landsins, einhverjir fimm metrar á hæð og sex á breiddina og gríðarlega flottur. Staðurinn mun taka rétt um hundrað manns í sæti og aðalinngangurinn er kominn á hliðina út í Traðarkotssundið svo það er komin góð tenging bæði upp á Laugaveginn og niður á Hverfisgötuna. Loks er bílastæðahúsið hérna við hliðina svo búið er að leysa það ef fólki finnst erfitt að finna stæði í bænum.“

Steikir ekki sjálfur borgara

Spurður hvort hann verður sjálfur á nýja veitingastaðnum að steikja hamborgara neitar Ásgeir því. „Ég verð að sjálfsögðu á staðnum en ég held ég láti það eiga sig að vera í eldhúsinu sjálfur, við verðum reyndar ekki með hamborgara, en við erum með rosalega flott lið þar. Yfirkokkurinn okkar heitir Bjartur Elí Friðþjófsson en hann var einn af yfirkokkunum á Grillmarkaðnum. Hann vann áður í Danmörku á einum flottasta Michelin-staðnum þar, Kadeau, sem er tveggja stjörnu staður,“ segir Ásgeir.

„Við höfum verið að þróa þennan matseðil saman síðustu mánuði, út frá breyttum áherslum fólks, en í dag vill það ekkert endilega vera að stútfylla sig, heldur snýst þetta meira um að fá sér einn eða tvo rétti, stundum fleiri saman, og svo góða rauðvínsflösku og kokteila og skemmtilega stemningu.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .