Pöntunum á varanlegum neysluvörum, í Bandaríkjunum, hefur fækkað mikið undanfarið . Slíkum pöntunum fækkaði um 4,5 prósent í ágúst.

Með varanlegum neysluvörum (e. durable goods) er átt við hluti eða búnað, oftast í dýrari kantinum, sem ætlað er að duga, eigi skemur en þrú ár. Bílar og flugvélar eru gott dæmi um slíka vöru.

Pöntunum fækkaði, sem fyrr segir, í ágúst. Öfugt var þó farið í júlímánuði en þá jukust pantanir á varanlegum neysluvörum um 0,8 prósent.

Frá þessu er greint á fréttavef Reuters. Þar kemur jafnframt fram að spáð hafði verið 1,6 prósenta samdrætti á slíkum pöntunum.

Ef farartæki eru ekki tekin með í útreikningunum þá fækkaði pöntunum á varanlegum neysluvörum um 3 prósent.

Pöntunum á farartækjum fækkaði um 8,9 prósent í ágúst en þeim hafði áður fjölgað um 2,8 prósent í júlímánuði.