Isavia kynnir nú þá nýjung á Keflavíkurflugvelli að bjóða upp á tímabundið verslunar- og veitingarými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Fyrirkomulagið er þekkt á flugvöllum erlendis og gengur yfirleitt undir nafninu „Pop-Up“ rými. Nú fyrir sumarið 2017 er auglýst eftir aðilum til þess að reka veitingastað í slíku „Pop-up“ rými á annarri hæð í suðurhluta flugstöðvarinnar en fyrir vetrartímabilið verður sérverslunum einnig boðið að sækja um. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia.

Verslunar- og veitingarýmið verður til útleigu í tvö tímabil á ári, sumar og vetur, fimm til sex mánuði í senn. Isavia vill koma til móts við mismunandi þjónustuþarfir eftir árstíma og farþegafjölda með þessari nýjung. „Um suðurhluta flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli fara flestallir þeir farþegar sem millilenda hér á landi á milli Evrópu og Norður-Ameríku og stoppa hér í stutta stund. Því er nú leitað að aðila sem getur afgreitt mat hratt og vel og höfðar til flugfarþega sem vilja fá sér hressingu á meðan á 20-70 mínútna stoppi sínu á Keflavíkurflugvelli stendur,“ segir í tilkynningunni.

Svæðið sem um ræðir er um 35 fermetrar á stærð á stað sem að fjöldi farþega gengur fram hjá. Að lokum bendir Isavia á það að í fyrra hafi 1,1 milljón farþega lent hér á landi einungis til að skipta um vél á milli heimsálfa og hefur þeim farið fjölgandi ár frá ári.