Ullarvöruframleiðandinn Varma hefur undanfarin ár þróað nýtt íslenskt lambsullarband í samstarfi við Ístex. Framleiðnisjóður landbúnaðarins veitti þróunarstyrk til verkefnisins en þetta er í fyrsta skipti sem lambsull er unnin til framleiðslu á svo umfangsmiklum skala.

Páll Kr. Pálsson, framkvæmdastjóri Varma, gerir ráð fyrir að í ár verði um 70% af öllu bandi sem notað er í Varma vörur úr íslenskri ull og enn hærra hlutfall á næsta ári.

„Innflutt ullarband hefur hækkað mikið í verði vegna veikingar krónunnar á árinu. Við sjáum því mikil tækifæri í íslenska lambsullarbandinu, sem er af miklum gæðum og nú ódýrara en innflutta bandið," segir Páll, sem sér einnig tækifæri í sjálfbærni framleiðslunnar.

„Það er okkar metnaður að vinna sem mest með íslenska ull. Varma vill skapa sér þá sérstöðu að vera eina fyrirtækið á heimsvísu sem sérhæfir sig í framleiðslu vara úr íslensku lambsullarbandi. Ullarbandið er náttúruleg afurð og lömbin hafa lifað í sínu náttúrulegu umhverfi. Við trúum því að framtíðin liggi í sjálfbærni, enda hefur verið mikil vakning meðal neytenda um náttúrulegan uppruna og við sjáum tækifæri í þeirri þróun."

Páll segir mikinn áhuga vera meðal íslenskra hönnuða á lambsullarbandinu, sem þegar hefur skilað þeim mörgum nýjum viðskiptavinum. „Margir hönnuðir eru þegar byrjaðir að vinna með lambsullarbandið og selja vörur unnar úr bandinu, auk þess sem við erum auðvitað að nota það í okkar eigin vörur."

Pop-up verslun með íslenskar ullarvörur

Ullarvörur Varma hafa verið mjög vinsælar meðal ferðamanna og hefur faraldurinn því mikil áhrif á sölu varanna. Varma ætlar að snúa vörn í sókn og opna pop-up verslun á Skólavörðustíg 4a á næstu dögum og reyna þannig að ná til Íslendinga fyrir jólin og efla um leið sölu á íslenskri framleiðslu.

Í versluninni verða íslenskar lambsullarvörur í forgrunni, bæði frá Varma og ýmsum hönnuðum sem hafa verið að prófa sig áfram með nýja lambsullarbandið. Sigrún Halla Unnarsdóttir fatahönnuður hefur unnið að því að koma pop-up versluninni á laggirnar.

„Við stefnum á að opna núna um helgina. Við förum rólega af stað, en þegar slakað verður á takmörkunum munum við minna rækilega á okkur. Verslunin verður til að byrja með opin fram yfir jól og í janúar, en vonandi gengur þetta það vel að hún verði opin lengur. Það verða skemmtilegir og jólalegir viðburðir á vegum miðborgarinnar í desember og því tilvalið að næla sér í íslenskar ullarvörur í jólapakkana og njóta stemningarinnar um leið," segir Sigrún Halla.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .