„Áfall; enginn vegur er að finna annað orð um úrslitin í atkvæðagreiðslu um kjarasamninga á almennum vinnumarkaði," skrifar  Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ritstjóri og ráðherra, í grein í Fréttablaðinu í dag.

„Þetta er áfall fyrir forystu Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins, áfall fyrir ríkisstjórnina, áfall fyrir þjóðarbúskapinn og áfall fyrir fólkið í landinu. Í raun snerist þessi atkvæða- greiðsla fyrst og fremst um verðbólgu. Samningarnir mæltu ekki fyrir um miklar kauphækkanir. Augljóst var að markmið þeirra var fyrst og fremst að verja kjör með því að stuðla að stöðugleika í þjóðarbúskapnum. Þetta var raunhæf og ábyrg niðurstaða í þröngri stöðu þjóðarbúsins."

Þorsteinn segir erfitt að svara þeirri spurningu hver vegna ábyrg sjónarmið eigi ekki upp á pallboðið í ríkara mælin en raun beri vitni um.

„En fram hjá því verður ekki horft að boðskapur forsætisráðherra í áramótaávarpinu veikti verulega málsvörn þeirra verkalýðsforingja sem boðuðu raunsæi í þessum samningum. Ummæli hans um nauðsyn þess að hækka lægstu laun og rétta hlut millistéttarinnar hafa vafalaust verið hugsuð inn í framtíðina. En vandinn er sá að þau voru látin falla í byrjun atkvæðagreiðslu um annan veruleika. Það er viðkvæmur tímapunktur," skrifar  Þorsteinn.

„Hver sem hugsunin var virkuðu þau sem haldreipi fyrir þá sem risu upp gegn ábyrgð og varkárni. Þegar til átti að taka urðu nógu margir til þess að grípa í þetta haldreipi. Afleiðingin blasir við. Hún sýnir hversu varasamt það er þegar varfærin langtímasjónarmið víkja fyrir stundar popúlisma. Laun hækka í kjarasamningum en kjörin batna ekki nema framleiðni- aukning standi að baki. Þetta er því miður ekki í fyrsta skipti sem von um launahækkanir er vakin áður en framleiðniaukningin er orðin að veruleika; og ekki í fyrsta skipti sem það kemur mönnum í klípu."

Mest mun mæða á ríkisstjórninni

Þorsteinn bendir á að samningarnir nú hafi átt að vera einskonar inngangskafli að langtímasamningum. Hann segir stóru spurninguna vera hvort þeir sem hafi talað fyrir ábyrgð leggi nú árar í bát eftir úrslit atkvæðagreiðslunnar?

„Það væri vissulega um margt skiljanlegt. Hitt er þó meira um vert að halda róðrinum áfram þó að hann hafi þyngst. Þar mun mest mæða á ríkisstjórninni. Aðeins markviss forysta af hennar hálfu getur létt róðurinn. Flest benti til að ríkisstjórnin gæti haft almennu samningana sem fyrirmynd gagnvart opinberum starfsmönnum. Það hefur snúist við. Staðan er því flóknari en áður og þolir enn síður popúlísk viðhorf."

Lesa má greinina hér .