Benedikt Eyjólfsson, betur þekktur sem Benni í Bílabúð Benna, segir að hlutfallslegt verð á bílum hafi breyst mikið á skömmum tíma.

Nefnir hann sem dæmi að verð á einni íbúð í póstnúmeri 101 jafngildi í dag 3-4 Porsche Cheyenne bílum.

„Til gamans má segja að Porsche Cayenne kostaði árið 2003-4 jafn mikið og íbúð í 101 Reykjavík. Í dag færðu 3-4 svona bíla fyrir eina íbúð,“ segir Benni í Morgunblaðinu, en þar nefnir hann meðal annars hættu á offramboði á notuðum bílum í landinu, vegna mikillar fjölgunar bílaleigubíla.

Ríkið borgi til baka vörugjöld

„Ég hef verið með þá hugmynd að ríkið borgi til baka hluta vörugjalda af bílum, ef þeir eru seldir úr landi.

Þarna væri verið að skapa gjaldeyri, auk þess sem ríkið væri búið að fá út úr bílunum það sem ferðamennirnir hafa eytt á ferðum sínum um landið, eldsneytisskatt o.fl. Þetta væri alveg stórsniðugt.“