*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Erlent 26. nóvember 2018 13:13

Poroshenko vill lýsa yfir herlögum

Forseti Úkraínu vill stuðning þingsins til að lýsa yfir herlögum eftir að Rússar hertóku 3 úkraínsk herskip í gær.

Ritstjórn
Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, á fundi öryggisráðs Úkraínu um málið í gær.
epa

Rússland heldur nú þremur Úkraínskum herskipum föngnum eftir að rússneskar sérveitir tóku þau yfir í gær. Úkraínska þingið mun greiða atkvæði í dag um hvort lýsa skuli yfir herlögum í 60 daga. Vesturlönd hafa kallað eftir því að bæði löndin dragi úr viðbúnaði.

Til átaka kom í gær þegar rússneskt herlið lokaði Kerch-sundinu, sem er eina leiðin frá Svartahafinu til Azov-hafsins, en löndin fara með stjórn þess síðarnefnda í sameiningu. Vildu Rússar meina að úkraínsku herskipin þrjú væru í rússneskri lögsögu í leyfisleysi. Rússnesk skip skutu á úkraínsku skipin, og rússneskar sérsveitir tóku þau svo yfir, og halda þeim enn.

Úkraínsk yfirvöld svöruðu því til að úkraínski sjóherinn hafi tilkynnt hina áætluðu för skipanna þriggja – dráttarbáts og tveggja lítilla herskipa – frá Odessa til hafnar í Azov-hafinu í samræmi við alþjóðlegar siglingareglur. Þau saka Rússland hinsvegar um að hafa brotið alþjóðlegar siglingareglur og samninga.

Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, vill lýsa yfir herlögum í 60 daga vegna málsins, sem meðal annars myndi auðvelda honum að kalla til aukinn herafla ef til frekari átaka kemur. Til þess þarf hann hinsvegar samþykki þingsins, sem hann hyggst sækjast eftir síðar í dag.

„Við lítum á þetta sem ögrun og mjög alvarlega ógn. Því miður eru engin mörk sem Rússland er ekki tilbúið að fara yfir,“ er haft eftir Poroshenko í frétt Financial Times um málið.