Porsche, dótturfélag þýska bílaframleiðandans Volkswagen, verður skráð á markað 29. september næstkomandi. Um er að ræða eitt stærsta frumútboð síðari ára að því er kemur fram í frétt Wall Street Journal.

Útboðsverðið verður á bilinu 76,5 til 82,5 evrur á hlut, sem er nálægt því sem greiningaraðilar höfðu spáð fyrir um.

Volkswagen hyggst selja 12,5% af hlut sínum í Porsche í frumútboðinu og annan 12,5% hlut beint til Porsche Automobil Holding SE, félags í meirihlutaeigu Porsche-Piech fjölskyldunnar, í formi hlutabréfa með atkvæðisrétti. Með þessu tryggir fjölskyldan, sem er stærsti hluthafi Volkswagen, sér yfirráð yfir lykilákvarðanir Porsche.

Samtals verður því 25% hlutur í Porsche seldur og er áætlað að Volkswagen fái samtals 19,5 milljarða evra fyrir söluna. Volkswagen hyggst greiða hluthöfum rúmlega 9,5 milljarða af söluandvirðinu í byrjun næsta árs og mun því halda eftir tæpum 10 milljörðum evra.

Þjóðarsjóður Katar hefur lýst yfir áhuga að kaupa 4,99% af almennu hlutafé Porsche og verða þar með hornsteinsfjárfestir í lúxusbílaframleiðandanum.