Porsche hefur gert formlegt yfirtökutilboð í Volkswagen eftir að stjórnendur fyrirtækisins greindu frá því í gær að hlutur sportbílaframleiðandans í Volkswagen hefði aukist um 3,6% og væri nú orðin 30,94%. Þar með hefur yfirtökuskylda myndast samkvæmt þýskum lögum og er Porsche bundið af því að gera öðrum hluthöfum í Volkswagen tilboð í þeirra hlut.

Yfirtökutilboð Porsche kom fáum á óvart en á laugardaginn boðaði stjórn fyrirtækisins til skyndifundar þar sem greint var frá þeim áformum að félagið hyggðist auka hlut sinn í Volkswagen. Með þessu móti ætlar Porsche, einn minnsti bílaframleiðandi í Evrópu, að koma í veg fyrir að fyrirtækið verði hugsanlega sjálft yfirtekið.

Hins vegar er ólíklegt að yfirtökutilboð Porsche til annarra hluthafa í Volkswagen verði tekið. Sportbílaframleiðandinn hefur sagt að það sé með ráðum gert að tilboð fyrirtækisins sé aðeins 100,92 evrur á hlut - minnsta mögulega tilboð sem fyrirtækinu er heimilt að bjóða samkvæmt lögum - en gengi hlutabréfa í Volkswagen um miðjan daginn í gær var 110,75 evrur á hlut og hafði þá lækkað um 2,4% frá því að markaðir opnuðu. Enda þótt stjórnendur Porsche haldi því fram að markmið þeirra sé ekki að eignast meirihluta í Volkswagen er það mat flestra sérfræðinga að svo sé engu að síður.

Núverandi lög í Þýskalandi veita Volkswagen vernd frá því að verða yfirtekið að fullu þar sem lögin takmarka atkvæðisrétt hluthafa við 20% burt séð frá því hversu stór sá hlutur er. Aftur á móti er búist við því að lögin verði ógild innan tíðar en stutt er síðan að lögfræðilegur ráðgjafi á vegum Evrópudómstólsins sagði að lögin brytu í bága við fyrirkomulag Evrópusambandsins, sem gerir ráð fyrir frjálsu flæði fjármagns milli aðildarríkja sambandsins.
Ef það gengur eftir að lögin verði afnumin er sennilegt að Porsche muni komast yfir meirihluta hlutafjár í Volkswagen þar sem þýska sambandsríkið neðra-Saxland hefur lýst því yfir að það sé reiðubúið að selja 20% hlut sinn í fyrirtækinu til Porsche.