Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen stefnir á að Porsche verði metið á 75 milljarða evra við skráningu þess á markað. Eigandi Porsche, Volkswagen, mun selja part af eignarhlut sínum í hlutafjárútboði en stefnt er á að bréf lúxusbílaframleiðandans verði skráð á markað eftir níu daga. BBC greinir frá.

Reiknað er með að hlutafjárútboð Porsche, sem ráðist verður í fyrir skráningu félagsins í Kauphöllina í Frankfurt, verði næst stærsta útboð í sögu Þýskalands.

Í tilkynningu Volkswagen til fjárfesta kemur fram að stefnt sé á að útboðsgengi hvers hlutar í Porsche verði á bilinu 76,5 til 82,5 evrur. Miðað við það verður markaðsvirði félagsins að útboði loknu á bilinu 70 til 75 milljarðar evra. Það er nokkuð undir upphaflegum væntingum stjórnenda Volkswagen sem vonuðust eftir að markaðsvirðið yrði allt að 85 milljarðar evra að útboði loknu. Talið er að blikur á lofti í heimshagkerfinu og hækkun vaxta víða um heim hafi orðið til þess að stjórnendur drógu úr væntingum sínum.

Volkswagen reiknar með að safna allt að 9,4 milljörðum evra í hlutafjárútboðinu og segir þá fjármuni verða nýtta til framleiðslu rafbíla og í hugbúnaðarþróun.