Skuldavandinn á evrusvæðinu er ekki að baki. Þvert á móti mun Portúgal verða næsta evruríkið til að lenda í greiðsluvanda á borð við þann sem Grikkland hefur glímt við um langt skeið. Þetta er mat Mohamed El-Erian, forstjóra Pimco, eins af umsvifamestu skuldabréfasjóðum í heimi.

El-Erian segir í viðtali við þýska tímaritið Der Spiegel allt stefna í að Portúgal rati í öngstræti fyrir árslok og verði Evrópusambandið að grípa til aðgerða til að forða landinu frá greiðsluþroti.

El-Erian hefur ekki verið jákvæður á afar kostnaðarsama björgun Grikklands og þann skell sem skuldabréfaeigendur urðu fyrir í björgunaraðgerðunum. Hann segir að hvað sem öðru líður þá verði Portúgal ekki forðað frá þroti. .

Reiknað er að því að hagkerfi Portúgals dragist saman um 3,3% á þessu ári. Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa þegar verið kallaðir til að koma í veg fyrir greiðslufall og hafa þeir veitt stjórnvöldum 78 milljarða evra lán. Það mun ekki duga til og verða stjórnvöld í Portúgal að fara bónleið til Brussel á nýjan leik, að mati El-Erian.