Ólíkt því sem Íslendingar eiga að venjast í örum vexti á fasteignamarkaði undanfarin ár, hefur markaðurinn í Portúgal aldrei náð sér upp á sama stig. Fasteignaverð í Portúgal hækkaði þó talsvert á árunum 2002 til 2004, en síðan hefur það í besta falli staðið í stað og í raun farið lækkandi síðan 2007, samkvæmt tölum Global Property Guide.

Þannig lækkaði meðal fermetraverð íbúðarhúsnæðis í Portúgal úr 1.243 evrum í júní 2006, niður í 1.220 evrur í janúar 2008, eða úr tæpum 150 þúsund krónum í 147 þúsund krónur. Meðaltalsverð í höfuðborginni Lissabon stóð í stað á árinu 2007 eftir ris og fall áranna þar á undan. Þannig lækkaði fasteignaverð í borginni árið 2004 um 1,86%, en steig síðan aftur um 1% árið 2005 og 1,3% árið 2006.

Á Lissabon-svæðinu lækkaði fasteignaverðið á síðasta ári um 0,79%.

Misjafnt eftir landsvæðum

Staðan hefur verið mun skárri á sólstrandasvæðinu í Algarve-héraði í suðurhluta landsins. Þar hækkaði verðið um 6% árið 2006, en þó aðeins um 0,13% árið 2007. Í öðrum hlutum landsins hefur ástandið verið mun verra. Þannig lækkaði fasteignaverð um 2,9% í Alentejo í fyrra, um 4,34% í Centro og 1,25% í Norte.

Leigumarkaðurinn í Portúgal hefur ekki þótt ákjósanlegur fyrir fasteignaeigendur. Hins vegar var lögum breytt árið 2006 til að reyna að ýta undir áhuga mann á að koma með meira húsnæði inn á leigumarkaðinn. Samt þykja lögin enn of ströng í garð húseigenda sem og skattalögin, sem bjóða upp á 15% flatan skatt af nettó leigutekjum. Þetta endurspeglast í afkomutölum leiguhúsnæðis. Er afkoman sögð aðeins 4,81% af 70 fermetra íbúð, en 5,43% af tvöfalt stærra húsnæði.

Í veruleika þar sem vextir hafa hækkað mjög mikið má ljóst vera að nær enginn hvati er fyrir menn að byggja nýtt leiguhúsnæði í Portúgal. Fyrir þá sem hyggjast fjárfesta í fasteignum í Portúgal má þá segja þeim til gleði að kostnaður við slík viðskipti er tiltölulega lágur miðað við það sem gengur og gerist í Evrópu.

Í erfiðri samkeppnisstöðu

virðast miklar líkar á að stórbreytingar verði í portúgölsku efnahagslífi á næstunni. Portúgal hefur verið með einhvern lélegasta hagvöxt í Evrópu mörg undanfarin ár. Er það eftir að hafa náð talsverðum hæðum fram til 1990 og síðan á árunum frá 1995 til 2000, eða allt að 5%. Lækkun hagvaxtar hefur fylgst nokkuð að við versnandi launakjör í landinu frá aldamótunum 2000.

Ástæðan er væntanlega sú að Portúgal hefur þurft að keppa í síauknum mæli við lágverðsframleiðslu Mið- Evrópu og Asíuríkja í textíl- og hrávöruiðnaði, sem eru stórir póstar í atvinnulífi Portúgala.

Ofan á þetta bættust ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um að hækka virðisaukaskatt úr 19% í 21% til að laga stöðu ríkissjóðs. Neikvæð áhrif þessara aðgerða neyddu ríkisstjórnina þó til að lækka virðisaukaskattinn aftur niður í 20% í júlí sl.

Þá hefur ýmislegt annað verið gert sem þykir neikvætt fyrir íbúana, eins og að hækka lífeyrisaldur úr 60 árum í 65 ár, auk þess sem dregið var mjög úr sjúkragreiðslum.

Einnig hefur verið reynt að ná til þeirra efnameiri með því að hækka hátekjuskatt úr 40% í 42%. Samkvæmt úttekt GGP virðast þessar ráðstafanir helst skila sér í minni viðskiptahalla.