Þá hefur fiskverðið til neytenda hækkað að meðaltali um þrjú prósent á ári á tímabilinu 2009 til 2018, en á móti kemur að fiskneysla hefur dregist nokkuð saman.

Þetta kemur fram í nýju riti frá EUMOFA, sem er stofnun á vegum Evrópusambandsins er sinnir markaðseftirliti og greiningu á markaði með sjávar- og eldisafurðir í Evrópu.

Þar kemur einnig fram að á árinu 2017 hafi framboð á sjávarafurðum dregist saman í aðildarlöndum Evrópu, sem rakið er til þess að heildaraflinn hafi minnkað. Þessu var að hluta mætt með auknum innflutningi.

Tvö kíló á mánuði
Að meðaltali snæddu íbúar ESB-landanna 24,35 kíló af sjávarfangi árið 2017, og komu þrír fjórðu af því frá veiðum á villtum fiski.

Vinsælasta fisktegundin er túnfiskur en þar næst koma þorskur og lax. Meðaltalsneyslan á túnfiski nam 3,07 kílóum árið 2017 en þorskneyslan nam 2,31 kílóum. Þá snæddu íbúarnir 2,24 kíló af laxi að meðaltali. Eldislax er 99,95 prósent af öllum laxi sem seldur er í Evrópusambandinu, en túnfiskur og þorskur er nánast alfarið veiddur villtur.

Portúgalar eru langduglegastir í fiskáti allra ESB-þjóða. Þeir snæddu 56,8 kíló á mann að meðaltali á árinu. Næstir koma Spánverjar með 45,6 kíló á mann.

Ungverjar borða hins vegar minnst af fiski, aðeins 5,6 kíló á mann, og næst koma Búlgarir og Rúmenar með sjö til átta kíló.

Þorskur og fleira
Þorskneysla hélt áfram að aukast í aðildarríkjum ESB. Hún hefur aukist jafnt og þétt á tímabilinu 2008 til 2017, var 1,85 kíló á mann að meðaltali á fyrri helmingi tímabilsins en komin upp í 2,32 kíló á mann á seinni helmingnum.

Miklu munar þar um aukinn innflutning frá Noregi, Íslandi, Rússlandi og Kína, en það sem flutt er inn til Evrópusambandsins frá Kína er að mestu leyti flök unnin úr frystum fiski, ýmist heilum eða slægðum, frá Noregi og Rússlandi.

Ísland veiddi helmingi meira af þorski en aðildarlönd ESB, en kolmunnaafli Íslands var þriðjungur af því sem ESB-löndin veiddu.

Evrópusambandslöndin veiddu samtals 777 þúsund tonn af síld árið 2017, en Noregur veiddi 526 þúsund tonn. Á milli ára hafði afli ESB minnkað um sjö prósent, en afli Noregs aukist um 50 prósent.

Mest af þeim sjávar- og eldisafurðum sem framleiddar eru í Evrópu koma frá þremur löndum sem öll standa utan Evrópusambandsins. Þau eru Rússland, Noregur og Ísland. Frá þessum þremur löndum kemur nærri 60 prósent framleiðslunnar.

Frá Rússlandi kemur einkum alaska-ufsi, frá Noregi kemur aðallega lax og síld, en frá Íslandi er það einkum þorskur og kolmunni.

Inn og út
Evrópusambandið í heild flytur inn sjávar- og eldisafurðir fyrir meiri pening en nokkurt land í heimi, eða samtals fyrir ríflega 26,5 milljarða evra. Næst koma Bandaríkin sem flytja inn fyrir tæplega 17,5 milljarða evra og Japan sem flytur inn fyrir 13 milljarða evra.

Næst á eftir Kína flytur Noregur út mest allra landa heims af sjávar- og eldisafurðum. Norðmenn fluttu út sjávar- og eldisafurðir fyrir 11 milljarða evra árið 2018. Evrópusambandið er í þriðja sæti yfir stærstu útflytjendur á þessu sviði, en samtals nam útflutningur ESB 5,75 milljörðum evra.

Mestu munar þar um eldislaxinn sem fluttur er út um heim allan, en mest þó til aðildarlanda Evrópusambandsins. Þangað fara meira en tveir þriðju hlutar af öllum útflutningi Norðmanna.

Þá flytur Noregur inn töluvert af sjávar- og eldisafurðum frá löndum ESB, eða samtals 36 prósent af öllum innflutningi Noregs í þessum flokki. Bæði Perú og Ísland útvega Norðmönnum einnig töluvert af sjávarafurðum sem ekki eru ætlaðar til manneldis, og er þar einkum um að ræða lýsi frá Perú og mjöl frá Íslandi.

Út að borða
Fimm Evrópusambandslönd eru duglegri en önnur að snæða fisk á veitingastöðum. Þetta eru Þjóðverjar, Spánverjar, Frakkar, Ítalir og Bretar. Samtals keyptu þessar þjóðir 72 prósent af þeim 727 þúsund tonnum sjávar- og eldisafurða sem seldar voru árið 2018 utan heimilis í ESB-löndunum.

Mest borða Bretar utan heimilis, og stafar það ekki síst af miklum fjölda staða sem bjóða upp á fisk og franskar, sannkölluðum þjóðarskyndibita þar í landi. Af öllum fiski sem Bretar borða eru 37 prósent snædd utan heimilis.

Þá kom í ljós að 45 prósent Breta borða sjávar- eða eldisafurðir utan heimilis að minnsta kosti einu sinni í mánuði, en á Ítalíu er samsvarandi hlutfall 37 prósent.