Portus Group, sem er í eigu Landsafls hf., Nýsis hf. og Íslenskra aðalverktaka hf., er með vænlegasta tilboðið í hönnun, byggingu og rekstur tónlistarhúss, ráðstefnumiðstöðvar og hótels (TRH) við Austurhöfnina í Reykjavík samkvæmt niðurstöðu matsnefndar og sérfræðinga Austurhafnar-TR. Þetta var kynnt við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu í dag sem og sú ákvörðun stjórnar Austurhafnar-TR að ganga til samninga um verkefnið við Portus Group.

?Þetta er stór stund í sögu Tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar. Undirbúningur þessa umfangsmikla verkefnis hefur staðið um árabil og nú hillir undir glæsilega lausn,? sagði Ólafur B. Thors, formaður stjórnar Austurhafnar TR ehf., við athöfnina í dag en félagið, sem er í eigu ríkisins (54%) og Reykjavíkurborgar (46%), hefur starfað að undirbúningi þessa máls síðan sumarið 2003.

Arkitektar Portus Group eru HLT, Henning Larsens Tegnestue A/S og Batteríið ehf. Hönnunarstjórn er í höndum Batterísins, HLT og verkfræðistofunnar Rambøll Danmark A/S. Verkfræðistofurnar Hnit hf. og Hönnun hf. eru tæknilegir ráðgjafar og Íslenskir aðalverktakar eru stýriverktaki. Útlit hússins er að miklu leyti verk hins þekkta listamanns og hönnuðar Ólafs Elíassonar og Vladimir Ashkenazy er sérlegur listrænn ráðgjafi Portus Group varðandi dagskrá fyrstu árin.

Valið á loksprettinum stóð á milli tilboðs Portus Group annars vegar og Fasteignar/Klasa, hins vegar. Arkitektar Fasteignar/Klasa eru Schmidt, Hammer & Lassen K/S, Teiknistofa Halldórs Guðmundssonar, Bernard Engle & Planners og Arrowsreet. Verkfræðiráðgjafar eru Línuhönnun og VSÓ Ráðgjöf en Ístak og E.Phil & Søn eru stýriverktakar. Þriðja félagið, Viðhöfn, með franska arkitektinn Jean Nouvel í broddi fylkingar, lagði einnig fram tilboð í verkefnið en féll úr leik í fyrri lotu keppninnar.