Póstbox höfuðborgarsvæðisins eru orðin yfirfull, svo að nokkurra daga bið hefur myndast eftir því að sendingar komist að í þau. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Póstinum.

Verður brugðist við þessu með því að senda sendingar sem eru á bið í Póstbox á höfuðborgarsvæðinu á næsta pósthús við viðkomandi Póstbox. Viðskiptavinir sem fá sendingar á pósthús verða látnir vita sérstaklega með tilkynningu, og nokkur pósthús á höfuðborgarsvæðinu verða opin næstu helgi báða daga frá 10-14.

Pósthúsin sem um ræðir eru Höfðabakki, Mjódd, Dalvegur og Fjörður á höfuðborgarsvæðinu og Norðurtangi og Strandgata á Akureyri, Keflavík og Selfoss á landsbyggðinni.

“Þegar við settum upp Póstboxin núna í haust þá vissum við að eftirspurnin yrði mikil en bjuggumst þó ekki við svona góðum viðtökum. Við erum að fylla á boxin oft á dag til að reyna að standa undir þessari eftirspurn en því miður er svo komið að við verðum að færa hluta af sendingum á pósthús til að tryggja að þær komist hraðar í hendur viðskiptavina og á sama tíma verða pósthúsin opin lengur í næstu viku og einnig nú um helgina. Viðskiptavinir geta tekið númer í röð á pósthúsinu á numer.posturinn.is og fylgst með röðinni að heiman eða úr bílnum. Það er betra að sendingar skili sér hratt og örugglega og við viljum alls ekki að Póstboxin verði flöskuháls sem lengir afhendingartíma. Við erum mjög ánægð með viðtökurnar og áætlum að setja enn fleiri Póstbox upp í náinni framtíð. Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda en við höfum í raun ekki völ á öðru sem stendur þar sem boxin hreinlega anna ekki eftirspurninni,“ er haft eftir Sesselíu Birgisdóttur, framkvæmdastjóra þjónustu- og markaðssviðs Póstsins í tilkynningunni.