Íslandspóstur ohf. hefur klárað prufufasa á svonefndum póstboxum sem hefur nú verið komið fyrir á sjö stöðum á höfuðborgarsvæðinu.

„Þetta hefur farið vel af stað hjá okkur,“ segir Brynjar Smári Rúnarsson, forstöðumaður markaðssviðs Íslandspósts. „Við fórum í ákveðinn prufufasa í desember en hrintum þessu úr vör í janúar,“ bætir hann við.

Brynjar segir helsta kostinn vera þann að notkun póstboxa sé ekki bundin við hefðbundinn afgreiðslutíma. Þá kemur fram í kynningarefni að notkun þeirra geti stytt afgreiðslutíma um allt að þrjá daga, séu reikningar sendir rafrænt samhliða pöntun.

Póstboxin eru að erlendri fyrirmynd, en þau eru innleidd hér á landi í samstarfi við pólska félagið Inpost. Íslandspóstur ætlar að halda nánari kynningu á póstboxunum á UT messunni, sem fer fram um helgina.