Pósthúsið hf. í Garðabæ fékk í byrjun árs gæðavottun samkvæmt ISO 9001:2008 staðlinum sem tekur til stjórnunar á gæðum og verkferlum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Pósthúsinu en það Staðlaráð Íslands sem veitir vottunina eftir reglum alþjóðlega staðlaráðsins.

Að sögn Hannesar A. Hannessonar, framkvæmdastjóra Pósthússins, er vottunin og ferlið í kringum hana framhald af þeirri viðleitni til að tryggja farveg forvarna og úrbóta til að fyrirbyggja vandamál sem upp geta komið.

„ISO staðallinn sem Pósthúsið uppfyllir tekur ekki bara á ferlum gæðamála, heldur einnig stjórnun rekstrar og mannauðs, samskiptum við birgja, þjónustustigi gagnvart viðskiptavinum og ferlum stöðugra umbóta í rekstrinum,“ segir í tilkynningunni.

„Til dæmis er lögð áhersla á að starfsmenn séu virkir þátttakendur í umbótaferlum, deili þekkingu sín á milli og ræði vandamál hindrunarlaust. Þannig skili umbætur sér betur og með styttri innleiðingartíma en ella.“

Hannes segir í tilkynningunni að þrátt fyrir stöðlun verkferla innan fyrirtækja megi ekki gleyma því að í gæðakerfum felist sífelldar umbætur, ferli sem stuðli að framþróun og vexti fyrirtækja.

„Að starfa innan ramma gæðakerfis þýðir ekki að ramminn megi ekki breytast til hins betra,“ segir Hannes.  Hann telur jafnframt að innleiðingarferlið sjálft hafi falið í sér talsverðar breytingar og haft mikil og góð áhrif, bæði innan fyrirtækisins sem utan. Það sést hvað best á rekstrarniðurstöðu nýliðins árs, sem var hið besta í sögu Pósthússins.