„Við höfum verið opin fyrir því að selja Póstmiðstöðina ef að gott verð fengist,“ segir Ari Edwald, forstjóri 365, í samtali við VB.is Eins og DV greindi frá í dag standa yfir viðræður við félag í eigu Þorsteins Más Baldvinssonar, fyrrverandi eiginkonu hans, og sonar Malcolms Walker um kaup á Póstmiðstöðinni.

Þetta er gott fyrirtæki og hefur byggst upp sem öflugt dreifingarfyrirtæki með fleiri viðskiptavini en okkur´,“ segir Ari í samtali við VB. Hann segir að Póstmiðstöðin sé ekki endilega nauðsynlegur hluti af þeim rekstri 365 þótt fyrirtækið dreifi meðal annars Fréttablaðinu. „Ekki frekar en Ísafoldarprentsmiðja, sem við áttum einu sinni helming í en eigum ekkert í lengur, en prentar Fréttablaðið,“ segir hann.

„Við erum fyrst og fremst efnisveita sem höfum síðan verið að feta okkur inn i fjarskipti sem eiga samleið með sjónvarpinu,“ segir Ari. Hann segir að 365 sé langstærsti viðskiptavinur Póstmiðstöðvarinnar en fyrirtækið sé samt alhliða dreifingarfyrirtæki

Aðspurður hvort fleiri breytingar séu í vændum á rekstri 365 þá neitar Ari því ekki en vill ekki nefna neinar breytingar.

Væntanlegir kaupendur Póstmiðstöðvarinnar, þeir Malcolm Walker og Þorsteinn Már Baldvinsson, eru báðir gamlir viðskiptafélagar Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Eiginkona Jóns Ásgeirs, Ingibjörg Pálmadóttir, er langstærsti hluthafinn í 365.