*

laugardagur, 11. júlí 2020
Innlent 13. september 2019 14:47

Póstnúmerabreytingar og nýjar götur

Hið nýja umdeilda póstnúmer 102 í Vatnsmýrinni tekur gildi 1. október. Sex ný póstnúmer verða til kringum Akureyri og Selfoss.

Höskuldur Marselíusarson
Póstnúmeraskipting Reykjavíkur fyrir breytingarnar sem taka gildi 1. október. Rauða ómerkta svæðið í miðborginni er nú póstnúmer 101 en því verður skipt upp þannig að það svæði sem er sunnan megin við Hringbrautina verður nú að póstnúmeri 102.
Aðsend mynd

Nýtt póstnúmer 102 í Reykjavík tekur gildi 1. október næstkomandi, en samhliða fá sveitarfélög í kringum Selfoss og Akureyri einnig ný póstnúmer að því er Íslandspóstur hefur tilkynnt um. Jafnframt tilkynnir Reykjavíkurborg um tvær nýjar götur í Vogahverfinu í dag, sem bera nöfnin Bátavogur og Stefnisvogur.

Fram hefur komið í fréttum að sérstaklega ein breytingin á póstnúmerum í borginni hefur valdið hefur töluverðri óánægju íbúa, sérstaklega í Skerjafirðinum. Það er sú ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur að biðja um að póstnúmerið 102 verði tekið upp fyrir Vatnsmýrina og nálæg hverfi, sem pósturinn hefur nú samþykkt. Póstnúmerum fjölgaði einnig í borginni og úti á landi árið 2017.

Nýja póstnúmerið 102 Reykjavík nær bæði til nýja hverfisins sem nú rís við Hlíðarenda, sem og til þeirra svæða í 101 sem eru austan megin við Suðurgötuna, það er Háskólasvæðið og Skerjafjarðarhverfisins. Önnur áberandi breyting á höfuðborgarsvæðinu er upptaka nýs póstnúmer 206 fyrir dreifbýli Kópavogs á Hellisheiði, sem verið hefur í 203 hingað til.

Sex ný póstnúmer úti á landi

Loks verður dreifbýlið í kringum bæði Selfoss og Akureyri skipt í ný póstnúmer eftir sveitarfélögum, en þau hafa hingað til verið í póstnúmerunum 801 og 601.

Þannig verður Flóahreppur að 803, Skeiða- og Gnúpverjahreppur að 804, Grímsnes- og Grafningshreppur að 805 og Bláskógabyggð að 806, öll í nágrenni Selfoss. Síðan verður Hörgársveit að 604, Eyjafjarðarsveit að 605, Svalbarðshreppur að 606 og hluti Þingeyjarsveitar að 607, öll í nágrenni Akureyrar.

Veðurstofan, bensínstöðvar, veitingahús og verslun færð milli póstnúmera

Auk þess boðar pósturinn bæði nokkrar minniháttar lagfæringar á póstnúmeramörkum í Reykjavík, þar með talið að bæði Veðurstofureiturinn, og bensínstöð Orkunnar í Öskjuhlíðinni, verði framvvegis í 105 en ekki 108 eins og verið hefur. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafði íbúðaleigufélagið Heimavellir uppi áform um uppbyggingu á um 100 íbúða hverfi á Veðurstofureitnum, en síðar dró félagið sig út úr þeim áformum.

Á heimasíðu póstsins má enn sjá kort yfir þann bútasaum sem póstnúmeraskiptingin er í borginni, en með þeim litlu breytingum sem einnig er verið að gera virðist fyrst og fremst verið að leitast við að hafa mörkin skýrari og láta þau fylgja stofnbrautum. Munu því til að mynda mörk póstnúmera 112 og 113 framvegis fylgja Suðurlandsvegi en í dag er smá bútur norðan megin í 113.

Þannig skiptist jafnframt smá partur austan megin Kringlumýrarbrautar meðfram Miklubraut sem tilheyrt hefur póstnúmeri 105 nú í tvennt og mun tilheyra annars vegar 108 norðan megin þar sem bensínstöð Orkunnar og Dirty Burgers og ribs er til húsa og hins vegar bensínstöð Orkunnar sunnan megin og verslun Kvikk sem færist í 103 líkt og Kringlan sem er aðliggjandi.

Á sama tíma boðar Reykjavíkurborg að tvær nýjar götur verði til í Vogahverfinu samhliða breytingum á austasta hluta Kleppsmýrarvegar og gatnamótum við Kjalarvog. Nýju göturnar á Gelgjutanga munu heita Bátavogur og Stefnisvogur, en framkvæmdir hefjast í næstu viku og verður aðkomu að hafnarsvæðinu beint um Brúarvog.