Pósturinn mun gera nokkrar breytingar á póstnúmerum landsins frá og með 1. desember að því er kemur fram í tilkynningu. Breytingarnar fela í sér að sérstakt póstnúmer verður tekið upp á svæðum í dreifbýli sem áður féllu undir sama póstnúmer og næsti þéttbýliskjarni. Hægt verður að þekkja flest nýju póstnúmerin á því að síðasta talan í þeim hækkar um einn.

Til útskýringar þá mun póstnúmerið 690 Vopnafjörður áfram gilda fyrir póst sem sendur er til fólks og fyrirtækja í þéttbýlishluta sveitarfélagsins en dreifbýli við Vopnafjörð fær póstnúmerið 691.  Annað dæmi um breytingar er póstnúmerið 116 Reykjavík, öðru nafni Kjalarnes, en það náði til allra sveitabæja frá Esjurótum út í Tíðarskarð sem og yfir þéttbýlið á Kjalarnesi. Eftir breytinguna verður dreifbýlið á svæðinu með póstnúmerið 162 Reykjavík en þéttbýlið með 116 Reykjavík eins og áður.

Ásbrú, sem er á gamla varnarsvæðinu, fær nú sitt eigið póstnúmer sem verður 262 Reykjanesbær. Þá verður Keflavíkurflugvöllur héðan í frá með sína eigin áritun, verður hún 235 Keflavíkurflugvöllur.