Á þessu ári hefur orðið 12 til 15% fækkun póstsendinga til landsins, þá mest á ódýrum kínverskum varningi frá Ali Express að því er Morgunblaðið greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrir rúmu ári tapaði Íslandspóstur um 1,1 milljarði á póstsendingum frá Kína, en vegna alþjóðlegra póstsamninga þarf íslenski pósturinn að greiða fyrir sendingar frá löndum sem skilgreind eru sem þróunarríki.

Eftir breytingar á innlendum reglum legst nú 600 króna sendingargjald á slíkan varning, sem er þá hlutfallslega hátt á smærri og ódýrari varning eins og símahulstur, skartgripi og þess háttar sem eru á verðbilinu 1 til 2 dalir.

Birgir Jónsson forstjóri Íslandspósts segir mikilvægt að hafa í huga að þetta gjald sé fast. „600 kr. er mikið ef varan kostaði 200 kr. en ekki mikið ef hún kostaði 50 þúsund. En það liggur fyrir að það kostar að koma sendingu yfir hálfan hnöttinn og afgreiða hana á endastöð og sá kostnaður verður að greiðast af einhverjum og þá er eðlilegast að viðskiptavinurinn greiði hann,“ segir Birgir.

Haft er eftir Birgi að Alþjóðapóstmálastofnunin hafi samþykkt að hækka gjaldsrká póstflutninga milli landa í þrepum á næstu árum, og segir hann það viðbrögð við miklum kostnaði vegna ódýrs varnings frá Kína en landið er enn skilgreint sem þróunarríki.

Höfðu Bandaríkjamenn hótað að draga sig úr alþjóðasamstarfinu ef ekki yrði gripið til ráðstafana, en Birgir segir enn óljóst hve miklu þetta muni raunverulega skila.

„Aðalmunurinn á þessu og íslensku leiðinni er að þar var tekið á vandanum strax með sérstöku gjaldi og tapið af vöruflokknum þar með stöðvað,“ segir Birgir sem segir afgreiðslugjaldið nærri tvöfalt hærra í nágrannalöndum Íslands.

Hér má lesa fleiri fréttir um málefni Íslandspósts:

Hér má lesa pistla um málefni Íslandspósts: