*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Innlent 27. maí 2019 14:10

Pósturinn fær pening sem ekki er til

PFS hefur fallist á að veita Póstinum 1.463 milljónir úr jöfnunarsjóði alþjónustu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur fallist á að veita Íslandspósti (ÍSP) 1.463 milljónir króna úr jöfnunarsjóði alþjónustu. Hins vegar liggur ekki fyrir hvaðan fjármunirnir koma enda ekkert til í sjóðnum.

Í október á síðasta ári sótti ÍSP um framlag úr sjóðnum vegna ófjármagnaðrar alþjónustubyrði á árunum 2013-17. Alls var sótt um 2,6 milljarða úthlutun en, líkt og sagt var frá á fyrr í dag, vísaði PFS hluta umsóknarinnar frá. Eftir átti að afgreiða þann hluta er laut að því hvort tap vegna erlendra póstsendinga teldist alþjónustubyrði.

Í dag féllst PFS á að slíkur kostnaður teldist til alþjónustubyrðar og féllst því á þann hluta umsóknarinnar að hluta. Talið var að krafa ársins 2013 auk hluta ársins 2014 væri fyrnd.

Umræddur jöfnunarsjóður er tómur enda hefur hann aldrei verið virkjaður. Lögum samkvæmt ber rekstrarleyfishöfum að greiða í sjóðinn en það hefur aldrei verið gert. Þar sem fallist er á umsóknina kom til álita að láta fyrirtæki á markaðnum greiða afturvirkt í sjóðinn. Það hefði aftur á móti þýtt að um 80% upphæðarinnar hefði komið frá ÍSP.

„Jöfnunargjaldsleiðin myndi því í reynd ekki leysa þann vanda sem upp er kominn í rekstri fyrirtækisins sem tengist hinum erlendu póstsendingum og án efa valda öðrum markaðsaðilum verulegum vandræðum. Í því samhengi megi einnig benda á að í frumvarpi til nýrra laga um póstþjónustu, sem nú liggur fyrir Alþingi, sé jöfnunarsjóður lagður niður og þess í stað kveðið á um að kostnaður vegna alþjónustu muni verða greiddur úr ríkissjóði,“ segir í tilkynningu frá PFS.

Mögulegt er því að ríkið muni þurfa að stíga inn og fjármagna greiðsluna. Óljóst er hvort það myndi bætast við fyrirhugaða 1,5 milljarðs hlutafjáraukningu ÍSP.

Stikkorð: íslandspóstur