*

laugardagur, 24. júlí 2021
Innlent 12. febrúar 2020 12:36

Pósturinn fer færeysku leiðina

Skeljungur og Pósturinn hefja samstarf þar sem hægt er að sækja póstsendingar á næstu Orkustöð.

Ritstjórn
Árni Pétur Jónsson forstjóri Skeljungs og Birgir Jónsson forstjóri Íslandspósts skrifuðu undir samkomulagið.
Aðsend mynd

Skeljungur og Pósturinn hafa gert með sér samstarfssamning en samkvæmt honum mun Pósturinn opna pakkastöðvar á þjónustustöðvum Orkunnar á höfuðborgarsvæðinu og afhenda þar fyrirframgreiddar sendingar til viðskiptavina sinna.

Þess má geta að víða um land hefur pósthúsum verið lokað og þjónustan færð til ýmis konar samstarfsaðila, en færeyski pósturinn hefur löngum haft þessa stefnu eins og Fréttablaðið fjallaði um á sínum tíma.

Pakkastöðvar Íslandspósts virka þannig að viðskiptavinir koma með staðfestingu á að þeir eigi sendingu í formi QR kóða, kóðinn er svo skannaður af starfsmanni sem afhendir svo sendinguna. Áætlað er að opnað verði fyrir afhendingar hjá Orkunni í mars næstkomandi.

Tæknin sem um ræðir var prófuð í desember á pósthúsum og reyndist gríðarlega vel en meðalbiðtími lækkaði mikið og hefur aldrei verið styttri í desember. Í byrjun verða pakkastöðvarnar á fjórum þjónustustöðvum Orkunnar en áætlað er að fleiri staðir munu bætast við víðsvegar um land á næstu mánuðum.

Ekki hægt að póstleggja hjá Orkunni fyrst um sinn

Eftir að opnað verður fyrir afhendingar munu fyrirframgreiddar sendingar sem ekki fara í Póstbox að beiðni viðskiptavina verða afhentar á þeim þjónustustað sem er næst heimili viðtakanda, hvort sem um er að ræða pósthús eða þjónustustöð Orkunnar.

Þeir viðskiptavinir Póstsins sem nýta sér stafræna lausnir fyrirtækisins fyrir fyrirframgreiðslu geta jafnframt kosið pakkastöð að eigin vali í afhendingarvali Póstsins. Vert er að taka fram að fyrst um sinn verður einungis hægt að sækja sendingar á þjónustustöðvum Orkunnar en póstlagning fer áfram fram á pósthúsum.

Árni Pétur Jónsson forstjóri Skeljungs segir félagið stöðugt vera að leita eftir því að bæta þjónustustöðvar Orkunnar til að einfalda viðskiptavinum líf sitt.

„Stórt skref í þá átt er að gera fólk kleift að nálgast póstsendingar á stöðvunum okkar. Annaðhvort með því að koma inn í Kvikk verslanir okkar sem verða með afhendingarþjónustu eða með því að sækja sendinguna í svokallað Póstbox,“ segir Árni Pétur. 

„Við erum ákaflega ánægð með að vera komin í samstarf við jafn öflugan aðila og Póstinn og sjáum mikil tækifæri í að þróa þjónustuna með þeim. Saman munum við fjölga Póstboxum við helstu þjónustustöðvar okkar og stefnum að því að bjóða upp á þessa þjónustu á okkar stöðvum á landsbyggðinni líka.“

Birgir Jónsson forstjóri Íslandspósts segir að rekstrarlegur viðsnúningur fyrirtækisins gangi vel en nú sé kominn tími til að laga þjónustuna svo um muni.

„Okkar helsta markmið er að mæta þörfum viðskiptavina okkar og stór hluti af því er að fjölga afhendingarstöðum, bjóða upp á sveigjanlegri afgreiðslutíma og þjónusta viðskipavini okkar á þeirra forsendum. Með þessu samstarfi höfum við tekið stórt skref í þá átt, við erum gríðarlega ánægð með að hafa fengið svona öflugan samstarfsaðila með okkur í verkefnið og það hefur verið einstaklega ánægjulegt að þróa þessa þjónustu með Skeljungi,“ segir Birgir.

„Fyrirframgreiðsla sendinga er lykillinn af því að hægt sé að bjóða upp á þessa þjónustu en hægt er að skrá sig í hana í appinu okkar og á postur.is. Þar er einnig hægt að velja að fá sendingar á þann stað sem hentar hverjum og einum, hvort sem um er að ræða pakkastöðvar, Póstbox eða pósthús. Fljótlega munum við svo koma með nýtt og betra app þar sem allt verður mun aðgengilegra fyrir viðskiptavini ásamt því að við munum bæta við Póstboxum á höfuðborgarsvæðinu og á fleiri stöðum á landinu.“