Íslandspóstur hefur sagt upp þrjátíu starfsmönnum sem komu að flokkun og dreifingu fjölpósts á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi, Selfossi og Akranesi. Ástæðan fyrir uppsögnunum er ákvörðun fyrirtækisins um að hætta dreifingu fjölpósts frá og með 1. maí á fyrrgreindum svæðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Líkt og með hefðbundin bréf hefur magn fjölpósts dregist mikið saman á síðustu árum. Íslandspóstur hefur brugðist við með því að fækka dreifingardögum. Nú er staðan hins vegar sú að reglulega þurfa bréfberar fyrirtækisins aðeins að bera út fjölpóst en engin bréf þegar þeir fara ferðir sínar. Afleiðingin er sú að umtalsverður kostnaður fellur á félagið en Pósturinn áætlar að um 200 milljónir muni sparast á ársgrundvelli vegna þessarar aðgerðar.

„Eins og kunnugt er fer nú fram mikil endurskipulagning á starfsemi Íslandspósts og eru þessar aðgerðir hluti af því ferli. Umbreyting fyrirtækisins hefur gengið vel og nú þegar má merkja viðsnúning í rekstrinum en ljóst er að verkefninu er hvergi nærri lokið og betur má ef duga skal. Við erum önnum kafin við að aðlaga reksturinn að kröfum á nútíma markaði en í svona endurskipulagningu þarf að horfast í augu við staðreyndir og taka margar erfiðar ákvarðanir, þessi ákvörðun er ein þeirra. Ég þakka því góða starfsfólki sem nú kveður okkur fyrir vel unnin störf og óska þeim góðs gengis í næstu verkefnum,“ er haft eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Póstsins, í tilkynningunni.

Ekki verður óskað eftir vinnuframlagi starfsfólksins á meðan uppsagnarfrestur rennur sitt skeið. Starfsfólki sem missir vinnuna verður boðið upp á sálfræðiþjónustu og ráðgjöf við atvinnuleit. Vinnumálastofnun hefur verið tilkynnt um uppsagnirnar.