*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 6. mars 2020 14:50

Pósturinn sektaður um fimm milljónir

Pósturinn viðurkennir brot gegn sátt við Samkeppniseftirlitið. Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir sektina alltof lága.

Ritstjórn
Janus Sigurjónsson

Samkeppniseftirlitið sektaði Íslandspóst í dag um fimm milljónir króna fyrir brot á sátt sem fyrirtækið gerði við Samkeppniseftirlitið árið 2017. Pósturinn hefur viðurkennt brot sitt.

Brot Póstsins fólst í að veita dótturfélaginu ePósti lán undir markaðskjörum og hafa ekki óskað eftir samþykki samkeppniseftirlitsins þegar ePóstur var sameinaður Póstinum á síðasta ári. ePóstur fékk 300 milljóna vaxtalaust lán frá Póstinum.

Eftirlitsnefnd með framkvæmd sáttar Samkeppniseftirlitsins og Póstsins hafði komist að því að félagið væri brotlegt við sáttina í september.

Telur sektina of lága

Það var Félag atvinnurekenda (FA) sem kvartaði til nefndarinnar vegna ePósts. „Við fögnum því að tekið sé á brotum Íslandspósts á sáttinni en teljum sektina alltof lága og hafa afar lítil fælingaráhrif gagnvart fyrirtækjum og stofnunum, sem gætu freistast til að rjúfa sátt við Samkeppniseftirlitið,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA í frétt á vef FA. „Við höfum kvartað undan fleiri brotum á sáttinni til eftirlitsnefndar og vonum að tekið verði á þeim af meiri myndugleik.“

Stikkorð: Pósturinn sátt samkeppnismál SKE