*

miðvikudagur, 23. september 2020
Innlent 3. mars 2020 11:42

Pósturinn selur Samskipti

Kaupin á Samskiptum árið 2006 þóttu nokkuð umdeild enda margir sem skildu ekki hví ríkið ætti að eiga prentsmiðju.

Jóhann Óli Eiðsson
Birgir Jónsson er forstjóri Íslandspósts.
Eva Björk Ægisdóttir

Hópur lykilstarfsmanna prentsmiðjunnar Samskipta hefur keypt félagið af Íslandspósti. Kaupverðið er trúnaðarmál að beiðni kaupenda félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandspósti.

Með sölunni hefur Pósturinn gegnir frá sölu á öllum dótturfélögum sínum sem fyrirtækið átti og voru á samkeppnismarkaði. Fyrst var Frakt flutningsmiðlun seld í september 2019, Gagnageymslan í nóvember sama ár og nú Samskipti. Félagið á enn hlut í Isnic og þá var dótturfélagið ePóstur sameinað móðurfélaginu fyrir rúmu ári. Sá ráðahagur er til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitnu.

Íslandspóstur keypti Samskipti árið 2006 en rekstur félagsins var þá bágborinn. Lán frá móðurfélaginu endurheimtist illa og var að endingu breytt í hlutafé. Kaupin voru umdeild á sínum tíma, meðal annars mikið rædd á Alþingi, enda áttu margir sig ekki á því af hverju í ósköpunum ríkið ætti að eiga og reka prentsmiðju. Þá var framkvæmdastjóri Samskipta um skeið settur undir valdsvið kjararáðs eftir að hrunið skall á.

Ráðgjafafyrirtækið Deloitte annaðist söluferlið sem hófst þann 12. september 2019, alls voru 33 aðilar sem sóttu sölugögn og 21 fengu formlega kynningu á fyrirtækinu. Í kjölfarið bárust sjö óskuldbindandi tilboð og þrír héldu áfram í lokaáfanga söluferlisins.

„Við höfum verið mjög trú þeirri sýn okkar að selja dótturfélög sem tengjast ekki kjarnastarfsemi Póstsins. Það eru því virkilega góðar fréttir að við höfum lokið sölu á Samskiptum sem er flott fyrirtæki á sínum markaði en hefur í raun enga samlegð með Póstinum. Ég er mjög ánægður með hvað hefur verið vandað vel til verka í söluferlinu en Deloitte hefur haldið mjög faglega utan um söluferlið. Það er svo gaman að segja frá því að það eru stjórnendur og hluti starfsmanna Samskipta sem eru kaupendur þannig að við vitum að við skiljum við fyrirtækið í traustum og reynslumiklum höndum. Við óskum nýjum eigendum og öðrum starfsmönnum Samskipta velfarnaðar í framtíðinni og þökkum þeim fyrir vel unnin störf,“ er haft eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Póstsins í tilkynningunni.

Stikkorð: Íslandspóstur