Íslandspóstur tapaði 510 milljónum króna á síðasta ári og jókst tap fyrirtækisins um 218 milljónir milli ára af en 225 milljóna einskiptiskostnaður kom til á árinu vegna endurskipulagningar. Tekjur námu 7.745 milljónum og lækkuðu lítillega á milli ára.

EBITDA nam 265 milljónum króna og ríflega fimmfaldaðist á milli ára en EBITDA leiðrétt fyrir einskiptiskostnaði nam 490 milljónum.

Launakostnaður félagsins nam 5.145 milljónum króna og lækkaði um 295 milljónir milli ára og fór launahlutfall úr 70% niður í 66%. Stöðugildum fækkaði um 101 á árinu og eru þau nú 721 talsins.

Eignir Íslandspósts námu tæplega 7,1 milljöðrum í árslok og jukust um 732 milljónir milli ára. Eigið fé í lok árs nam 3,2 milljörðum en eiginfjárhlutfall var 45% og hækkaði um 10 prósentustig milli ára eftir tæplega milljarðs hlutafjáraukningu á árinu.