Póstþjónusta Bandaríkjanna tapaði 3,2 milljörðum bandaríkjadala á fyrstu þremur mánuðum ársins. Ástæðan kemur sjálfsagt fáum af að óvart -umfangsmikill samdráttur í póstsendingum.

Tap fyrir sama tímabil á síðasta ári var 2,2 milljarðar og virðist þróunin því ganga hratt. Í tilkynningu frá stjórnendum Póstsins sagði að fyrirtækið legði nú alla áherslu á að finna nýjar leiðir til að auka tekjur og minnka kostnað. Stjórnendur segja slíkar aðgerðir þó ekki nægja til að Pósturinn geti skilað hagnaði.

Þetta er í tíunda skiptið í röð sem ársfjórðungsniðurstaða Póstsins er neikvæð. Á fréttaveitunni Bloomberg er því velt upp hvort tímabært sé fyrir bandarísk yfirvöld að endurskoða löggjöf svo unnt sé að bæta rekstur Póstsins.