Póstverslun frá Kína fór úr 123 milljónum króna árið 2013 í 292 milljónir króna á síðasta ári og nemur aukning hennar því 137% á milli ára. Þetta kemur fram í samantekt Hagstofu Íslands sem unnin var fyrir Fréttablaðið .

Fríverslunarsamningur milli Íslands og Kína tók gildi þann 1. júlí í fyrra og féllu þá niður tollar á nær öllum vörum sem fluttar eru inn frá síðarnefnda landinu. Í Fréttablaðinu er greint frá því að aukningu póstverslunar megi að stórum hluta rekja til netverslunarinnar Aliexpress sem er í eigu kínversku samstæðunnar Alibaba.

Gunnar Óskarsson, lektor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við Fréttablaðið að óvarlegt sé að gefa sér að aukning viðskiptanna haldi sé milli 2014 og 2015, þar sem mesta stökkið hafi örugglega veirð þegar fríverslunarsamningurinn komst á.