Þrátt fyrir að Búlgaría muni fá aðild að Evrópusambandinu (ESB) í næsta mánuði mun Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA), sem ákvarðar öryggisreglur flugmála fyrir sambandið auk EES-landanna, ekki votta starfsemi flugfélaga landsins. Ástæða þessa er að nýleg úttekt EASA á öryggismálum búlgarskra flugfélaga stóðst ekki þær öryggiskröfur sem stofnunin gerir. Þetta þýðir meðal annars það að sérhvert aðildarríki sambandsins þarf að ákvarða hvort að búlgörskum flugvélum verður heimilað að fljúga til og frá lofthelgi þeirra.

Stofnunin mun fljótlega gera aftur úttekt á öryggismálum búlgarskra flugfélaga og talsmenn framkvæmdarstjórnar ESB hafa lýst því yfir að Búlgarar fái aðild að EASA um leið og þeir standast settar kröfur.