*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 3. október 2014 07:39

Pottur brotinn í verklagi við símhlustanir

Ríkissaksóknari segir að þótt símtöl verjenda við sakborninga hafi verið hleruð þýði það ekki að þau hafi verið notuð við rannsókn mála.

Ritstjórn
Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari.
Haraldur Guðjónsson

„Það liggur fyrir að það var pottur brotinn í verklaginu við símhlustanir hjá sérstökum,“ segir Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, í samtali við Fréttablaðið.

Embætti ríkissaksóknara hefur verið gagnrýnt fyrir að hafa ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu með símhlustunum nægilega vel. Verklag sérstaks saksóknara við símhlustanir hefur verið gagnrýnt sérstaklega þar sem því hefur verið haldið fram að hann hafi hlustað á símtöl sakborninga við verjendur sína.

„En þeir eru hættir núna, það voru minnir mig bara tvær hlustanir hjá þeim í fyrra og svo ekkert í ár. Þetta er bara búið þar. En þetta er auðvitað áhyggjuefni og ég skil vel að verjendur séu súrir,“ segir Sigríður.

Sigríður segir þó að þrátt fyrir að símtöl verjenda við sakborninga hafi verið vistuð hjá sérstökum saksóknara þýði það ekki að slík samtöl hafi verið hleruð eða notuð við rannsókn mála. „Það að lögmennirnir fengu aðgang að þessum hljóðskrám hjá embættinu og það eru þeir sem finna þetta sýnir að ef embættið hefði ætlað sér að gera eitthvað með þetta eða reyna að fela þetta þá hefðu þeir verið búnir að kippa þessu út.“