Ragnar Matthíasson framkvæmdastjóri Poulsen í Skeifunni, segir í Viðskiptablaðinu í dag að algjör sprenging hafa orðið á varahlutasölu á síðustu mánuðum.

„Í sumum vörulínum hefur orðið margföld aukning í veltu miðað við árið áður. Við vorum líka að þjónusta verktakafyrirtækin og iðnaðinn og þar hefur verið mikill samdráttur og hefur því þessi aukning hjá okkur í varahlutasölunni náð að vinna það upp.

Við erum bara lítið fyrirtæki sem velti tæpum 700 milljónum á síðasta ári og erum  að berjast í þessu starfsumhverfi þar sem allur kostnaður hefur rokið upp og evran eins og hún er. Gerum við okkur vonir um að verða með c.a. 15% aukningu á veltu fyrir árið 2009."

Friðrik Hreinsson, verslunarstjóri segir að vegna aukinnar sölu hafi þurft að bæta við mannskap, en um 30 manns starfa hjá Poulsen í dag.

„Um leið og kreppan skall á varð hreinlega sprenging í sölunni hjá okkur, enda er fólk hætt að skipta um bíla um leið og öskubakkinn verður fullur. Nú eru það sérstaklega þriggja ára bílarnir sem eru að koma úr ábyrgð og farnir að þarfnast viðhalds sem verið er að kaupa varahluti í. Þá er fólk farið að sækja meira í eldri bíla og um leið eykst varahlutasalan hjá okkur. Síðan leggjum við líka mikið upp úr því að vera ódýrastir á markaðnum."

Friðrik segir að á undanförnu árum hafi svokallaðar bílskúraviðgerðir verið að leggjast af. Einstaklingar hafi fremur farið og keypt nýja bíla heldur en að standa sjálft í viðgerðum. Þetta sé að snúast við aftur.

„Nú eru það ekki bara verkstæðin sem eru að versla við okkur, heldur mun meiri fjöldi einstaklinga en áður og þar með bílskúrakarlarnir." Hann segir þó að í bílum í dag sé orðið svo mikið um tölvustýringar að ákveðnir þætti vélaviðgerða séu vart framkvæmanlegar lengur nema hjá sérhæfðum verkstæðum.

Einn þáttur í aukinni varahlutasölu er sala og ísetning á rúðum í bíla. Þar býður Poulsen rúður frá Pilkington og AGC sem eru virtustu bílrúðuframleiðendur í heiminum og bílaframleiðendur kaupa m.a. sínar rúður af. Segir Friðrik að þetta séu líka einu framleiðendurnir sem tryggingafélög víða um heim viðurkenna.

Auk fjölbreytts úrvals af bílavörum býður Poulsen upp á margvíslegar aðrar vörur eins og heita potta og nuddpotta frá kanadíska framleiðandanum CoastSpas sem rokið hafa út að undanförnu.

„Við höfum t.d. selt meira af rafmagnspottum í ár en á sama tíma í fyrra. Þar njótum við líka mikillar þekkingar og reynslu í að þjónusta þessa vöru. Þá erum við líka með mjög góðan birgja sem við höfum skipt við lengi. Poulsen Ísland fékk meira að segja söluverðlaun CoastSpas fyrir sölu í Evrópu í fyrra," segir Friðrik og bendir á að hjá Poulsen séu um 30.000 vörunúmer á boðstólum.