Jerome Powell, bankastjóri bandaríska seðlabankans, þótti gefa það í skyn að bankinn stefndi á vaxtalækkanir sem yrðu þær fyrstu frá því í desember 2008,  þegar hann kom fyrir þingnefnd nú í morgun. Þetta kemur fram í frétt BBC . Sagði Powell að óvissa varðandi horfur í efnahagslífinu hefð aukist á síðustu mánuðum. Orð Powell kunna að koma einhverjum á óvart en í síðustu viku birtust tölur sem sýndu sterka stöðu bandarísks vinnumarkaðar auk þess sem bjartara virðist vera yfir varðandi viðskipti Bandaríkjanna og Kína.

Þá nefndi Powell einnig að veikari staða í öðrum hagkerfum en Bandaríkjanna muni hafa áhrif á hagkerfi landsins auk þess sem samdráttur í fjárfestingum væru áhyggjuefni. Þrátt fyrir það sagði Powell að hann byggist við áframhaldandi vexti bandaríska hagkerfisins.

Powell hefur á síðustu misserum verið undir töluverðum þrýstingi frá Donald Trump um að lækka vexti. Frá árinu 2015 voru stýrivextir bankans hækkaðir úr 0,25% upp 2,5% en bankinn stöðvaði hækkanir sýnar í byrjun þessa árs.