Seðlabanki Bandaríkjanna tilkynnti í gær um frekari björgunaraðgerðir vegna kórónufaraldursins upp á 2.300 milljarða dala, til viðbótar við þær aðgerðir sem þegar hefur verið ráðist í.

Um er að ræða beinar lánveitingar til fylkja, borga og millistórra fyrirtækja, auk þess að bæta í aðgerðir til að tryggja aðgang stærri fyrirtækja að markaðsfjármögnun. Bankinn gaf ennfremur í skyn að hann væri tilbúinn að ganga enn lengra ef þörf kræfi.

Kórónuveiran hefur nú smitað tæpa hálfa milljón Bandaríkjamanna, svo vitað sé, og dregið tæp 18 þúsund til dauða. Svo til öll fylki hafa lagt á svokölluð heimasetutilmæli (stay-at-home order), og þingið hefur samþykkt 2 þúsund milljarða dala björgunarpakka.

Seðlabankinn þar í landi hefur auk þess lækkað stýrivexti til muna og hafið stórtæk skuldabréfakaup á markaði, svokallaða magnbundna íhlutun. Aðgerðirnar sem tilkynntar voru í gær eru hinsvegar svo til óþekktar í nútímasögu peningamála.

Bankinn mun sem fyrr segir lána millistórum fyrirtækjum með beinum hætti, auk þess að kaupa skuldabréf stærri fyrirtækja, hvers lánshæfismat hefur í mörgum tilfellum fallið úr svokölluðum fjárfestingaflokki niður í ruslflokk.