*

laugardagur, 19. september 2020
Erlent 13. maí 2020 14:25

Powell varar við langvarandi kreppu

Á 40% bandarískra lágtekjuheimila hefur einhver misst vinnuna eftir að heimsfaraldurinn hófst.

Ritstjórn
Jerome Powell er seðlabankastjóri Bandaríkjanna.
epa

Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna býst við því að hagvöxtur í landinu verði hægur til lengri tíma og bæði hét því að bankinn myndi gera meira til að ýta undir eftirspurn og kallar eftir því að bandaríska ríkið eyði meiru. Þetta kemur fram í viðtali við Powell hvar hann segir einnig frá niðurstöðum könnunar sem seðlabankinn lét gera.

Samkvæmt könnuninni hafa um 40% allra heimila með undir 40 þúsund dali í árstekjur orðið fyrir atvinnumissi, en það jafngildir um 5,8 milljónum íslenskra króna. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í byrjun mánaðarins hlaupa þeir sem misst hafa vinnu vegna faraldursins á tugum milljóna og 3 milljónir heimila voru komin í greiðslustöðvun í upphafi síðasta mánaðar.

Samt sem áður segir Powell að viðbrögð bandarískra stjórnvalda „hafi verið einstaklega snögg og kraftmikil“ að sögn Reuters þó hann telji að það geti tekið þónokkurn tíma fyrir hagkerfið að ná sér á ný.

Það fari jafnframt eftir því hvernig gengur að berjast gegn kórónuveirufaraldrinum. Eftir því sem heilsufarsáhættan vari, því líklegra verði að fyrirtæki muni fara illa og heimili, þá sérstaklega þau efnaminni, verði fyrir barðinu á niðursveiflunni.

Í versta falli geti hagkerfið orðið fast í „viðvarandi tímabili lítils hagvaxtar og staðnaðra tekna... aukin efnahagsleg örvun gæti verið kostnaðarsöm en þess virði ef það hjálpar til við að hindra langtímaskaða á hagkerfinu og tryggði okkur öflugri uppsveiflu,“ sagði Powell meðal annars.

Powell hefur í gegnum feril sinn verið talinn hlynntur því að ríkisvaldið haldi að sér höndum í eyðslu og efnahagslegum örvunaraðgerðum, en orð hans nú má túlka sem svo að þing og forseti landsins ættu að bæta við ríflega 1.800 milljarða dala björgunarpakka sem samþykktur var í marslok, eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði kallað eftir milljarðainnspýtingu.