Guðmundur Ragnar Guðmundsson og Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir hafa keypt allan rekstur Prentsmiðju Suðurlands ehf. og taka við rekstri fyrirtækisins 1. ágúst næstkomandi, segir í tilkynningu.

Nýju eigendurnir eiga einnig Prentmet í Reykjavík og Prentverk Akraness. Allir starfsmenn Prentsmiðju Suðurlands munu vinna áfram hjá nýju eigendunum og verður Örn Grétarsson prentsmiðjustjóri á Selfossi. Stefna Guðmundar og Ingibjargar er að efla starfsemi prentsmiðjunnar enn frekar þar sem einkunnarorðin verða hraði, gæði og persónuleg þjónusta.

Þá ætla þau að treysta stöðu Dagskrárinnar enn frekar á markaðnum og efla blaðið til muna.

Prentsmiðja Suðurlands ehf. var stofnuð 30. júlí 1957. Saga prentlistarinnar í Árnesþingi er þó um það bil 300 árum eldri því fyrsta prentsmiðjan í sýslunni var sett upp í Skálholti árið 1685.